23/04/2024

Digital Ísland um alla Vestfirði?

Síðustu daga hefur verið nokkuð í fréttum að útsendingar Digital Íslands séu nú að koma á Vestfjörðum öllum. Strandir eru að vísu ekki hluti af því átaki sem nú stendur yfir, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu verður slíkri stafrænni útsendingu komið á koppinn hér um slóðir nú í febrúar. Eftir því sem ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is kemst næst nást þær útsendingar þar sem Stöð 2 næst núna, en ekki alls staðar í dreifbýli. Stafræna útsendingin hefur hins vegar í för með sér að fleiri stöðvar nást í gegnum loftnetið en áður.

Útsendingar 365 nást þá aðeins með Digital Ísland myndlykli, en Stöð 2 er víðast hvar eina sjónvarpsstöðin sem fyrirtækið rekur sem náðst hefur á Ströndum. Þeir sem vilja njóta þess áfram að horfa á fréttir Stöðvar 2 í opinni dagskrá, án þess að vera áskrifendur, gefst kostur á að leigja myndlykil.

Á þeim nýju stöðum á Vestfjörðum sem útsendingar Digital Ísland ná til eftir breytingarnar verða eftirtaldar stöðvar í boði: RÚV, Stöð 2, Stöð 2 bíó, Sýn, Sýn Extra 1, Sirkus og Skár 1. Þá hefur Digital Ísland ákveðið að bæta einni erlendri stöð við þær stöðvar sem eru sendar út í opinni dagskrá og hefur fréttastöðin Sky News orðið fyrir valinu. Sky News verður því aðgengileg og opin öllum þeim sem hafa myndlykil frá Digital Íslandi um leið og skipt er yfir í starfrænar útsendingu. Einnig verður hægt að hlusta á nokkrar útvarpsstöðvar sem ekki hafa náðst áður í gegnum sjónvarpið.