05/05/2024

Dagskráin í desember 2014

640-jolasv1

Að venju er mikið um að vera í jólamánuðinum desember á Ströndum. Margvíslegar jólaskemmtanir og viðburðir eru á dagskránni fyrir íbúa á Ströndum og gesti þeirra, jólaböll og tónleikar, skemmtanir og gleði. Hér er birt yfirlit yfir það helsta sem er á dagskránni í desember 2014 á Ströndum og nágrenni eða á vegum Strandamanna og ætlunin er að bæta við þessa frétt eftir því sem upplýsingar berast um fleiri viðburði í netfangið strandir@strandir.saudfjarsetur.is. Atburðirnir eru birtir í öfugri tímaröð.

Sýningar og jólamarkaðir:

Jóladagatalið – barnaleikrit sem Leikfélag Hólmavíkur setur upp í net-/útvarpsútgáfu fyrir jólin 2014. Skemmtilegt jólaleikrit fyrir alla fjölskylduna, fyrsti hluti birtist 12. desember og síðan birtist leikritið í bútum á netinu á hverjum degi til jóla. Sjá nánar á Facebook-síðu Leikfélags Hólmavíkur, strandir.saudfjarsetur.is eða á YouTube.

Myndlist og handverk á aðventunni. Magnús Bragason og Heidrun Scherwinsky með sölusýningu á málverkum og handverki á Restaurant Galdri, Galdrasýningu á Ströndum á Hólmavík. Opið alla daga.

Handverksmarkaður Strandakúnstar. Í sölubúð Strandakúnstar við Höfðagötu á Hólmavík, handverk og listmunir heimamanna til sölu. Opið alla daga (Ásdís, s. 694-3306).

Viðburðir:

31. desember, miðvikudagur
Gamlársdagur.
Gamlársdagur um land allt og líka á Ströndum. Brennur, fjör og flugeldar. Strandir.

Áramótabrenna og flugeldasýning við Skeljavíkurrétt á gamlársdag. Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík stendur fyrir áramótabrennu kl. 18:00 og flugeldasýningu kl. 18:20. Við Skeljavíkurrétt utan Hólmavíkur.

Gamlársbrenna, flugeldar og söngur. Björgunarsveitin Björg heldur brennu á Gamlársdag kl. 18:00 á Mýrarholti einnig verður flugeldasýning og Borkó tekur nokkra Gamlársslagara! Mýrarholt Drangsnesi.

Nýársfagnaður á Hólmavík. Nýársgleði á Café Riis á gamlárskvöld, húsið opnar kl. 00:30. Café Riis Hólmavík.

30. desember, þriðjudagur
Körfuboltamót á Hólmavík. Héraðssamband Strandamanna stendur fyrir körfuboltamóti í Íþróttamiðstöðinni Hólmavík 30. des. og hefst mótið kl. 18:00. Raðað verður í lið á staðnum, eina sem þarf að gera er að mæta! Íþróttamiðstöðin Hólmavík.

28. desember, sunnudagur
Bridgekvöld á Hólmavík
. Spilað í björgunarsveitarhúsinu Rósubúð á Hólmavík, Höfðagötu 9. Hefst kl. 19:30. Björgunarsveitarhúsið Hólmavík.

Guðsþjónusta í Óspakseyrarkirkju sunnudaginn 28. desember, hefst kl. 14:00. Óspakseyri í Bitrufirði.

27. desember, laugardagur
Afgangadagur í Fjósinu – ungmennahúsi. Laugardaginn 27. desember verður afgangakvöld, þá koma allir með eitthvað gott að heiman og í sínu fínasta pússi. Dansað verður í kringum jólatré. Byrjar klukkan 20:00. Fjósið ungmennahús á Hólmavík (Hafnarbraut 19).

Félagsvist í Tjarnarlundi. Félagsvist verður spiluð í Tjarnarlundi laugardaginn 27. desember kl. 20. Aðgangseyrir er 700 kr. Sjoppa verður á staðnum en enginn posi. Tjarnarlundur í Saurbæ.

Félagsvist í Árnesi, Trékyllisvík. Félagsvist í Árneshreppi. Félagsheimilið Árnes, Trékyllisvík.

Jólaball á Drangsnesi. Árlegt jólaball á Drangsnesi. Samkomuhúsið Baldur Drangsnesi.

26. desember, föstudagur
Jólaball á Hólmavík. Árlegt jólaball í félagsheimilinu á Hólmavík sem jólaballsnefndin stendur fyrir, hefst kl. 14:00. Gengið í kringum jólatré og jólasveinar koma í heimsókn. Félagsheimilið Hólmavík.

Guðsþjónusta í Árneskirkju á annan í jólum, hefst kl. 14:00. Árneskirkja í Trékyllisvík.

PUB QUIZ á Café Riis. Hefst kl. 22.00 – barinn verður svo opinn fram eftir. Café Riis á Hólmavík.

25. desember, fimmtudagur
Guðsþjónusta í Drangsneskapellu á jóladag, hefst kl. 13:00. Drangsneskapella, Grunnskólanum á Drangsnesi.

Guðsþjónusta í Kollafjarðarneskirkju á jóladag, hefst kl. 15:30. Kollafjarðarneskirkja.

24. desember, miðvikudagur
Aðfangadagur jóla. Aðfangadagur jóla um land allt og líka á Ströndum. Veislumatur, gjafir og gleði. Strandir.

Guðsþjónusta í Hólmavíkurkirkju, hefst kl. 18:00. Hólmavíkurkirkja.

23. desember, þriðjudagur
Upplestur úr nýjum jólabókum.
Leikfélag Hólmavíkur sér um upplestur úr nýjum jólabókum á Héraðsbókasafninu á opnunartíma 19:30-20:30. Heitt á könnunni. Héraðsbókasafnið í Grunnskólanum á Hólmavík.

21. desember, sunnudagur
Jólabingó á Hólmavík. Félagsmiðstöðin Ozon stendur fyrir jólabingó í félagsheimilinu á Hólmavík og hefst bingóið kl. 16:00. Félagsheimilið á Hólmavík.

Bridgekvöld á Hólmavík. Spilað í björgunarsveitarhúsinu Rósubúð á Hólmavík, Höfðagötu 9. Hefst kl. 19:30. Björgunarsveitarhúsið Hólmavík.

20. desember, laugardagur
Jólagleði.
Uppákoma, söngur, kakó og kökur á Sauðfjársetrinu. Jólagleði, hefst kl. 20:00. Söfnunarviðburður fyrir Unicef vegna baráttu gegn ebólu. Sylvía, Agnes og Dagrún standa fyrir viðburðinum. Sævangur við Steingrímsfjörð.

Skötuveisla á Café Riis. Alls konar lostæti og ljúfmeti á hlaðborðinu og kæst skata í öndvegi, veislan hefst kl. 18:30. Café Riis á Hólmavík.

Jólaskemmtun í félagsheimilinu Árnesi. Krakkarnir í Finnbogastaðaskóla halda jólaskemmtun í Félagsheimilinu og jólaball á eftir. Pottaskefill og Þvörusleikir mæta, segja sögur, syngja og dansa í kringum jólatré. Félagsheimilið Árnes í Trékyllisvík.

19. desember, föstudagur
Jólasöngur í KSH. Grunnskólabörn troða upp með jólasöng ásamt Siggu og Gulla, kl. 17:00. Kaupfélag Steingrímsfjarðar, Hólmavík.

18. desember, fimmtudagur
Litlu jól Grunnskólans á Hólmavík klukkan 14:00 – 16:00. Nemendur Grunn- og Tónskóla stíga á svið, leika leikrit og flytja tónlist. Gengið verður í kringum jólatréð, jólahljómsveitin Grunntónn sér um forsöng og undirspil og jólasveinarnir mæta á staðinn. Félagsheimilinu, Hólmavík.

17. desember, miðvikudagur
Jólaball og jólagleði Grunnskólans á Drangsnesi. Tónlistaratriði, kaffi og smákökur og gengið í kringum jólatré. Grunnskólinn á Drangsnesi.

16. desember, þriðjudagur
Jólabókalestur á Héraðsbókasafninu
. Þriðjudaginn 16. desember verður Leikfélag Hólmavíkur með lestur úr nýjum jólabókum á Héraðsbókabókasafninu í kvöldopnunartímanum 19:30-20:30. Lestur og kaffi. Héraðsbókasafnið, Grunnskólanum á Hólmavík.

FRESTAÐ: Jólamölin á Drangsnesi. Jólatónleikar Malarinnar verða haldnir í þriðja sinn þriðjudagskvöldið 16. desember á Malarkaffi. Að þessu sinni mun söngvaskáldið góðkunna Svavar Knútur heiðra Strandamenn og -konur með nærveru sinni og flytja jólalög, eigin og annarra í bland við annað efni. Á undan Svavari mun Borko bregða sér í jólagírinn og flytja nokkur lög venju samkvæmt. Tónleikarnir hefjast kl. 21:30 en húsið opnar hálftíma fyrr. Miðaverð er 2000 kr. Malarkaffi á Drangsnesi.

15. desember, mánudagur
Jólatónleikar á Sauðfjársetrinu. Íris Björg Guðbjartsdóttir verður með jólatónleika á Sauðfjársetrinu mánudaginn 15. desember kl. 20:00. Þarna verða lög sem flestir þekkja spiluð á ljúfu nótunum.  Jólagestir Írisar verða Miðhúsahjónin Viðar og Barbara.  Miðaverð 1.500.- fyrir 13 ára og eldri, 800.- fyrir 6-12 ára og frítt fyrir yngri, súkkulaði og piparkökur innifalið í verðinu. Sævangur við Steingrímsfjörð.

14. desember, sunnudagur
Aðventuhátíð Kórs Átthagafélags Strandamanna verður haldin í Bústaðakirkju sunnudaginn 14. desember kl. 16.30. Stjórnandi kórsins er Ágota Joó, einsöngvari er Kristján Jóhannsson og Vilberg Viggósson leikur á píanó. Hugvekju flytur Hans Guðberg Alfreðsson. Miðaverð við innganginn er 4.000 kr. fyrir fullorðna, frítt er fyrir börn hátíðargesta, 14 ára og yngri. Kaffihlaðborð er innifalið. Miðaverð í forsölu er 3.500 kr., þá skal hafa samband við Gíslínu (sími 699 8859), Ragnheiði (sími 616 3148) eða aðra kórfélaga. Forsölu lýkur föstudaginn 12. desember. Bústaðakirkja, Reykjavík.

Bridgekvöld á Hólmavík. Spilað í björgunarsveitarhúsinu Rósubúð á Hólmavík, Höfðagötu 9. Hefst kl. 19:30. Björgunarsveitarhúsið Hólmavík.

13. desember, laugardagur
Jólasveinninn heimsækir Hólmavík. Laugardaginn 13. des. verður jólasveinninn staddur á Hólmavík, nánar tiltekið í Kvenfélagshúsinu á Hólmavík frá kl. 14-16. Allir krakkar eru hvattir til að kíkja í heimsókn og taka mömmu, pabba og myndavélina með. Vöfflur og kakó selt á staðnum. Jólasveinninn og Kvenfélagið Glæður. Kvenfélagshúsið við Kópnesbraut á Hólmavík.  

12. desember, föstudagur
Kökubasar í anddyri KSH sem Kvennakórinn Norðurljós stendur fyrir föstudaginn 12. des. frá kl. 15 þar til birgðir klárast.  Um að gera að kaupa eitthvað gómsætt fyrir jólin, allskonar hnallþórur, kökur og brauð. Kaupfélag Steingrímsfjarðar, Hólmavík.

Leikskólakórinn syngur jólalög kl. 17:00 í KSH á Hólmavík. Kaupfélag Steingrímsfjarðar, Hólmavík.

11. desember, fimmtudagur
Söngvakeppnin Samvest fer fram fimmtudaginn 11. desember! Krakkarnir í 8.-10. bekk í félagsmiðstöðinni Ozon keppa um að komast á Samvest. Viðburðurinn fer fram í Grunnskólanum á Hólmavík og hefst klukkan 20:00. Grunnskólinn á Hólmavík. ATH. breytt tímasetning.

Jólatónleikar Lóuþræla. Karlakórinn Lóuþrælar heldur jólatónleika í Barnaskólanum á Borðeyri, fimmtudaginn 11. desember, klukkan 20:30. Á söngskránni eru jóla- og aðventulög, íslensk og erlend. Stjórnandi kórsins er Guðmundur St. Sigurðsson og undirleikari Elinborg Sigurgeirsdóttir. Einsöngvari er Úlfar Trausti Þórðarson. Kynnir er sr. Magnús Magnússon. Hugvekju flytur Guðný Hrund Karlsdóttir. Heitt súkkulaði og smákökur að loknum tónleikum. Enginn aðgangseyrir. Tónleikarnir eru í boði Landsbankans á Hvammstanga og styrktir af Menningarráði Norðurlands vestra. Grunnskólanum Borðeyri.

8. desember, mánudagur
Jólatónleikar Tónlistarskóla Húnaþings vestra verða í grunn- og leikskóla Borðeyrar mánudaginn 8. desember kl. 15:00. Foreldrafélag tónlistarskólans verður með kakóveitingar og eru foreldrar beðnir um að leggja til kaffibrauð. Grunnskólanum Borðeyri.

7. desember, sunnudagur
Kolaport í félagsheimilinu á Hólmavík, fjáröflunarviðburður fyrir félagsmiðstöðina Ozon sem stendur fyrir Kolaportinu. Opið 13-17. Félagsheimilið á Hólmavík.

Jólahlaðborð félags eldri borgara á Ströndum á Café Riis. Húsið opnar kl. 19:00, veislan hefst hálftíma síðar. Café Riis Hólmavík.

Bridgemót á vegum Bridgeklúbbs Hólmavíkur, heimsókn að Silfurtúni í Búðardal, spilaður tvímenningur til heiðurs Davíðs Stefánssyni. Silfurtún, Búðardal.

6. desember, laugardagur
Jólahlaðborð á Café Riis. Húsið opnar kl. 19:00, veislan hefst hálftíma síðar. Café Riis Hólmavík.

5. desember, föstudagur
Beltapróf í teakwondo. Beltapróf á vegum Teakwondodeildar Geislans föstudaginn 5. desember í íþróttamiðstöðinni á Hólmavík. Hefst kl. 17:30. Beltaprófið kostar 3.500 kr. Íþróttamiðstöðin Hólmavík.

Jólahlaðborð á Café Riis. Húsið opnar kl. 19:00, veislan hefst hálftíma síðar. Café Riis Hólmavík.

4. desember, fimmtudagur
Jólaföndur. Foreldrafélag Grunnskólans á Hólmavík ætlar að bjóða upp á jólaföndur í dag, fimmtudaginn 4. desember, kl. 18:00-20:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Á staðnum verður til sölu heitt súkkulaði og smákökur gegn vægu gjaldi. Félagsheimilinu Hólmavík.

3. desember, miðvikudagur
Aðventukvöld í Hólmavíkurkirkju miðvikudaginn 3. desember og hefst klukkan 19:30. Á dagskránni er kórsöngur, upplestur og almennur söngur. Allir eru velkomnir, segir í dreifimiða frá sóknarpresti. Hólmavíkurkirkju, Hólmavík.