22/12/2024

Búið að bera kennsl á lík sem fannst í Kaldbaksvík

645-kaldbakshorn
Eins og greint hefur verið frá í fréttum fundu ferðamenn lík í fjörunni í Kaldbaksvík á Ströndum föstudagskvöldið 17. maí. Lögregla var kölluð til og voru líkamsleifarnar síðan fluttar suður til skoðunar hjá svokallaðri kennslanefnd Ríkislögreglustjóraembættisins sem fer með rannsókn slíkra mála. Kennslanefndin sem er skipuð tveimur rannsóknarlögreglumönnum, réttarlækni og tannlækni, hefur nú lokið störfum. Niðurstaðan er ótvírætt sú að líkið er af Gunnari Gunnarssyni sem féll útbyrðis af Múlabergi SI-22 á siglingu skipsins frá Siglufirði þann 12. desember síðastliðinn. Gunnar var frá Dalvík og starfaði um árabil sem skipstjóri og stýrimaður hjá útgerðarfélaginu Ramma hf á Siglufirði. Ættingjum hefur verið tilkynnt um niðurstöðu rannsóknarinnar.

Í tilkynningu á vef lögreglunnar kemur fram að lögreglan á Vestfjörðum vill færa ferðafólkinu sem tilkynnti um líkið, kennslanefnd Ríkislögreglustjóraembættisins og lögreglunni á Akureyri þakkir fyrir aðkomu þeirra að málinu.