22/12/2024

Brúin yfir Mjóafjörð opnuð 20. ágúst

Samkvæmt fréttavefnum bb.is á Ísafirði er gert ráð fyrir að umferð verði hleypt á nýja brú yfir Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi 20. ágúst næstkomandi. Nýi vegurinn út að Reykjanesi, yfir Reykjarfjörð, Vatnsfjarðarháls og Mjóafjarðarbrúna leysir þá veginn yfir Eyrarfjall (Hestakleif) af hólmi sem aðalvegur til og frá norðanverðum Vestfjörðum yfir sumartímann og veginn inn fyrir Mjóafjörð um vetur. Við þetta lengist sumarleiðin milli Hólmavíkur og Ísafjarðar um nokkra kílómetra, en á móti kemur að vetrarleiðin styttist umtalsvert, 6 einbreiðar og háskalegar brýr færast út fyrir aðalveginn og bundið slitlag verður alla leið. Súðavík verður því fyrsti þéttbýlisstaðurinn sem hægt verður að aka til á bundnu slitlagi frá Hólmavík.

Í fréttinni á bb.is segir:  

"Starfsmenn Vestfirskra verktaka ehf., vinna þessa dagana hörðum höndum að því að steypa brík brúarinnar og að sögn Sveins Inga Guðbjörnssonar, yfirbrúarsmiðs, eru allar líkur á að lokið verði við allan frágang kringum 20. ágúst. Lokið var við að steypa gólf Mjóafjarðarbrúar í fyrir tveimur vikum. Þrjátíu og sex starfsmenn Vestfirskra verktaka ehf. og KNH ehf. voru við vinnuna sem var umfangsmikil þar sem keyra þurfti 160m³ af steypu í hjólbörum í 160 metra langt brúargólfið og voru menn á vöktum við verkið."