22/12/2024

Brellurnar bruna gegnum Strandir

Viðtal: María Ragnarsdóttir í Brellunum

Hólreiðahópurinn Brellurnar lagði af stað á sjómannadaginn frá Patreksfirði til þess að hjóla hringinn í kringum Vestfirði. Þetta er um 640 km leið og þeim miðar vel áfram. Þær eru að safna áheitum fyrir Fríðu Eyrúnu Sæmundsdóttur en hún er nýorðin lögblind. Fréttamaður strandir.saudfjarsetur.is náði tali af einni úr hópnum þegar að þær stöldruðu við á Hólmavík til þess að fá sér að borða. Það var María Ragnarsdóttir sem er ein af Brellunum sem stóð fyrir svörum:

Hvernig kviknaði hugmyndin að því að hjóla þessa leið?
Hugmyndin kviknaði í fyrra. Ein okkar var að keyra um Vestfirðina og hugsaði með sér að það væri gaman að hjóla þetta, svo völdum við okkur gott málefni.

Hvernig er ferðin búin að ganga?
Heyrðu það er búið að ganga rosalega vel, reyndar lentum við í því fyrsta daginn að það voru alveg 18-20 metrar á sekúndu alla Barðaströndina, en það gekk rosa vel í gær og í dag. Við ætlum að reyna að komast í Heydal í dag en við erum svolítið á undan áætlun.

Eruð þið búnar að lenda í einhverjum ævintýrum?
Já á Barðaströndinni fyrsta daginn því að það var svo rosalega hvasst og það kom svo mikil vindhviða að tvær okkar fuku um koll, en slösuðust sem betur fer lítið.

Af hverju kallið þið ykkur Brellurnar?
Vegna þess að fjallið fyrir ofan Patreksfjörð heitir það og svo rímar það við gellurnar og okkur fannst það frekar flott.

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is þakkar Brellunum kærlega fyrir spjallið og óskar þeim góðrar ferðar á leiðinni. Um leið minnum við á söfnunarreikninginn þeirra 153-05-23 kt100674-3199 og hvetjum alla Strandamenn til þess að styðja þetta góða málefni.