22/12/2024

Biskupsheimsókn í Bæjarhrepp

Á mánudaginn var komu biskupshjónin herra Karl Sigurbjörnsson og Kristín Guðjónsdóttir í heimsókn í Bæjarhrepp ásamt prófastshjónunum á Melstað, séra Guðna Þór Ólafssyni og Guðrúnu Láru Magnúsdóttur. Tilefnið var vísitasía biskups á Prestbakka. Fyrst var komið í skólann á Borðeyri og börnin heimsótt. Biskupinn vildi fá að hitta börnin í sveitinni og spjalla við þau.

Karl náði vel til barnanna. Hann ræddi meðal annars um krossins tákn sem víða væri jú sýnilegt, meðal annars í íslenska fánanum, en einn væri sá kross sem ekki væri sýnilegur, sagði Karl og spurði börnin hvort þau vissu hvar sá kross væri. Þá kvaddi ungur drengurinn sér hljóðs og sagði í fullri alvöru: "Hann er á Galdrasafninu." Krossinn sem biskup átti við var hins vegar krossinn sem allir bera í hjarta sínu. Biskup færði svo öllum börnunum lítinn kross að gjöf.

 

Kaffi og kleinur voru í boði skólans að lokinni heimsókninni þar. Því næst var haldið til kirkju á Prestbakka þar sem haldinn var formlegur fundur með sóknarnefnd Prestbakkasóknar. Eitt af því sem biskup vildi taka sérstaklega fyrir var að skoða og fara yfir munaskrá kirkjunnar. Biskupi var tjáð að Prestbakkakirkja yrði 50 ára 2007 og til stæði að halda upp á það með pompi og prakt. Biskupi var boðið að sækja kirkju og söfnuð heim við þau tímamót.

Messað var svo kl. 15.30 í kirkjunni þar sem sr Guðni Þór Ólafsson þjónaði fyrir altari og herra Karl Sigurbjörnsson biskup predikaði. Sameiginlegur Kirkjukór Staðar og Prestbakkakirkju söng ásamt börnum Grunnskólans á Borðeyri sem sungu einn sálm, undirleikari var Pálína Skúladóttir.

Eftir messu bauð sóknanefndin til kaffisamsætis í Grunnskólanum á Borðeyri. Þar voru kræsingar fram bornar af kvenfélagskonum úr kvenfélaginu Iðunni. Biskup talaði svo undir borðum, fannst honum samfélagið gott í Bæjarhreppi og gott samband væri greinilega milli barnanna og kirkjunnar, sem væri að sjálfsögðu af hinu góða.

Biskup ræddi um komandi afmæli kirkjunnar á Prestbakka og ætla mátti af orðum hans að hann stefnir að því að koma við það tækifæri, alla vega lauk hann orðum sínum með því að segja: "Sjáumst". Að lokum kvöddu biskupshjónin alla veislugesti með handabandi, en milli 60 og 70 manns voru við vísitasíuna.

Ljósm. Sveinn Karlsson