22/12/2024

Beðið eftir lagfæringum í Bitrunni

Í nýjasta tölublaði Framkvæmdafrétta Vegagerðarinnar er birt yfirlit yfir framkvæmdir á Norðvestursvæði 2008. Samkvæmt því eru verklok á 4 kílómetra kaflanum sem nú er unnið við Bassastaði í október 2008, en áður hafði komið fram að Vegagerðin bauð upp á að fresta verklokum frá þeim tíma. Fram kemur að fyrirhuguð nýbygging á vegi í Bjarnarfirði verði 3,15 km, en það verk hefur ekki verið boðið út ennþá. Um leið verður þá væntanlega gerð ný brú á Bjarnarfjarðará, en fjármagn í þá framkvæmd hefur verið ónotað frá 2006. Mesta athygli Strandamanna vekur þó það sem ekki er á kortinu, því ekki er gert ráð fyrir að breikka hið háskalega einbreiða slitlag í Bitrufirði, sem áður hefur komið fram að ætti að gera í haust og reyndar líka í fyrra.

Á Djúpvegi nr. 61 er ennþá einbreitt malbik í 13 kílómetra kafla í Bitrufirði á Ströndum og er mjög illa farið milli Óspakseyrar og Tunguár. Þar sem undirlagið hefur ekki þolað umferð og þungaflutninga liðinna ára og yfirborðið er í meira lagi öldótt og hjólför á köflum djúp. Vegurinn í Bitrunni utan við Óspakseyri allt að Brekku hefur einnig verið til vandræða og á þeim kafla hafa margar bílveltur orðið. Þar er undirlagið í köntunum of sendið og laust í sér. Þegar þungir bílar eru að mætast á einbreiða slitlaginu þurfa auðvitað báðir að fara út á kantana og þá hættir kantinum til að skríða undan þunga bílanna og hafa bæði vanir og óvanir lent þar í vandræðum og veltum.

Skapast oft hætta þegar óvanir bílstjórar mætast í Bitrunni, því óvönum hættir til að þora ekki út fyrir slitlagið þegar þeir mæta öðrum farartækjum. Ef viðhald á köntunum er ekki gott getur verið dálítill hæðarmunur á og hrökkva menn þá við. Eins prísa maður sig stundum sæla fyrir að hafa sloppið heilir á húfi eftir að hafa mætt á þessum slóðum ökumönnum sem hafa gleymt því stundarkorn hvað þeir eru með breið fellhýsi eða aftanívagna í eftirdragi. Á vegi þar sem flutningabíll og móturhjól geta ekki mæst með góðu móti kann það ekki góðri lukku að stýra.

Slys og óhöpp, svo ekki sé nú talað um bílveltur, eru allt of tíð á þessum vegi. Í rigningu myndast fljótt pollar í öldudölunum og hjólförunum á veginum og þá er hætta á að bílar fljóti upp, sem menn átta sig ekki á. Einnig hafa oftsinnis orðið skemmdir á ökutækjum á veginum, t.d. á bílum sem lágt er undir sem rekast niður á öldurnar í slitlaginu.