26/04/2024

Bátur brann á Norðurfirði í nótt

Eldur kviknaði í sjö tonna plastbáti í höfninni í Norðurfirði í Árneshreppi í nótt, Eyjólfi Ólafssyni HU-100. Vart varð við eldinn fyrir klukkan sex í morgun. Aðstoð barst frá Slökkviliði Strandabyggðar á Hólmavík sem slökkti eldinn, en báturinn er gjörónýtur og sökk að lokum. Frá Hólmavík eru 105 km í Norðurfjörð og samkvæmt frétt á ruv.is er ekki slökkvilið í Árneshreppi. Þar er einnig haft eftir Evu Sigurbjörnsdóttir oddvita hreppsins að unnið sé að því að ná bátnum upp og koma í veg fyrir mengun af olíu í höfninni í samráði við Umhverfisstofnun. Einnig er sagt frá atburðum og birtar myndir á fréttasíðunni litlihjalli.it.is. Myndina sem fylgir þessari frétt tók Þórólfur Guðfinnsson í Norðurfirði.