04/10/2024

Basknesk þjóðlög og sönglög Sigvalda Kaldalóns á Snæfjallaströnd

Laugardaginn 28. júlí kl. 16:30 munu Spánverjar og Íslendingar tengjast tónlistarböndum í Dalbæ á Snæfjallaströnd. Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui í Dúó Atlantica flytja þá þjóðlög á basknesku, spænsku og íslensku sem og sönglög eftir eitt ástkærasta tónskáld Íslendinga, Sigvalda Kaldalóns, sem gegndi einmitt læknisstörfum á Snæfjallaströnd.

Dúó Atlantica er þekkt fyrir að skapa mikla nánd við áhorfendur, innlifun, frumlegt efnisval, heillandi framkomu, tilfinninganæma túlkun og áhugaverðar kynningar, sem færa hlustendur inn í heim hvers lags fyrir sig. Guðrún og Javier komu fyrst fram saman árið 2002 í Guildhall School of Music and Drama í London, þaðan sem þau luku bæði mastersgráðum í tónlist. Síðan þá hafa þau komið reglulega fram í fjölmörgum tónleikasölum og á tónlistarhátíðum víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum og Afríku.

Þau hafa tekið upp þrjá geisladiska: Mitt er þitt – íslensk og spænsk sönglög (12 tónar), English and Scottish Romantic Songs for voice and guitar (EMEC Discos) og Secretos Quiero Descubrir (Abu Records). Upptökur þeirra má einnig heyra á diskunum Inspired by Harpa, Icelandic Folksongs and Other Favorites, Kom skapari (12 tónar) og Awake (Orpheus Classical).

Þó að Ísland og Spánn séu langt hvort frá öðru á Evrópukortinu og menning þessara landa um margt ólík, þá hafa þau engu að síður verið tengd í gegnum aldirnar vegna fiskveiða Spánverja við Ísland. Á 17. öld var gefið út baskneskt-íslenskt orðasafn, en það hefur verið talið fyrsti vísir að orðabók á Íslandi. Maður getur reynt að ímynda sér hvernig Íslendingarnir og Spánverjarnir hafa reynt að skilja hvorir aðra og ná saman, ef til vill með því að syngja sum af þjóðlögunum sem Guðrún og Javier flytja á tónleikunum. Á okkar tímum gera Spánverjar sér ennþá gott af íslenska saltfisknum, eða bacalao, en hann er uppistaðan í þjóðarréttum á borð við ajoarriero, bacalao al pil pil og croquetas de bacalao. Allir þessir réttir eru tilbrigði við íslenska saltfiskstefið. Í þeim anda berum við á borð fyrir ykkur íslensk þjóðlög flutt við undirleik spænska gítarsins.

Ísland og Spánn voru fyrr á öldum hvort á sinn hátt að vissu leyti einangruð frá öðrum Evrópulöndum. Ísland vegna legu sinnar úti í miðju Atlantshafi, Spánn vegna Pýreneafjallanna. Ef til vill hefur þessi einangrun átt þátt í því að þjóðlagatónlist í ákveðnum stíl þróaðist og varðveittist í hvoru landi fyrir sig. Spænsk tónskáld hafa í gegnum tíðina verið ötul við að útsetja þjóðlagatónlist og hefur sú tónlist haft mikil áhrif á aðrar tónsmíðar þeirra. Federico García Lorca er betur þekktur fyrir bókmenntaverk sín, en hann var lærður píanóleikari og náinn vinur Manuel de Falla. Nokkur lög á tónleikunum tilheyra safni þjóðlaga sem Lorca og flamengósöngkonan “la argentinita” söfnuðu í Andalúsíu. Lorca útsetti lögin á einfaldan hátt fyrir rödd og píanó og þau fluttu þau saman og hljóðrituðu. Guðrún og Javier flytja lögin í umskrifun fyrir rödd og gítar eftir Javier.

Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. Aðgangur er ókeypis. Hægt verður að versla kaffiveitingar.

www.duoatlantica.com

http://snjafjallasetur.is/

http://baskavinir.is/