28/04/2024

Barátta fyrir betra samfélagi

Grein eftir Jón Jónsson
Eftir hálfan mánuð, þann 29. maí, verða sveitarstjórnarkosningar um land allt og líka í Strandabyggð. Þar verða tveir listar í boði sem kjósendur velja á milli. Annars vegar er J-listinn, sá hinn sami og hefur haldið um stjórnartauma í sveitarfélaginu síðustu fjögur ár. Hins vegar er nýr valkostur, V-listinn, sem býður fram í fyrsta skipti og er skipaður kraftmiklu fólki sem vill nota þekkingu sína og hæfileika í þágu samfélagsins. Undirritaður, Jón Jónsson á Kirkjubóli, hefur tekið að sér að leiða V-listann og er um leið oddvitaefni hans ef nægt fylgi fæst í kosningunum.

Einlægur áhugi á málefnum Stranda

En af hverju eru menn að gefa færi á sér í sveitarstjórn, hefur fólk sagt við mig, eftir að V-listinn var birtur. Eru þetta ekki tóm leiðindi? Er ekki bara sparnaður og niðurskurður framundan næstu
árin hér í Strandabyggð eins og annars staðar?

Svarið við þessu er einfalt. Vissulega eru erfiðir tímar og samdráttur í útgjöldum ríkisins og þar með tekjum sveitarfélaga framundan. Þetta eru sárgrætileg en nauðsynleg viðbrögð ríkisvaldsins við afskiptaleysisstefnu þeirra einstaklinga og flokka sem áður höfðu völdin á landsvísu, siðleysinu sem fékk að vaða uppi og óstjórninni sem einkenndi samfélagið og leiddi að lokum til bankahrunsins 2008. En það er aldrei mikilvægara en einmitt nú, þegar kreppir að, að sveitarstjórnir vinni eftir mótaðri framtíðarsýn, þori að forgangsraða, séu stefnufastar, en um leið opnar fyrir öllum hugsanlegum tækifærum til að efla og bæta samfélagið. Hugsi bæði um vörn og sókn. Í sveitarstjórnum landsins þarf að vera fólk sem leitar að lausnum, en veltir sér ekki upp úr vandamálum.

V-listinn er skipaður slíku fólki. Góðu fólki sem ber hag Strandabyggðar fyrir brjósti. Fólki sem hefur einlægan áhuga á öllu sem eflt getur byggð og atvinnulíf á svæðinu og er tilbúið til að vera öflugir talsmenn sveitarfélagsins út á við. V-listann skipar samstiga hópur sem ætlar sér að vinna ötullega að því að auka lífsgæði íbúa Strandabyggðar næstu árin. Fólk sem er til í að leggja vinnu í áætlanagerð og hugmyndafræðina sem þarf að búa á bak við það sem gert er. Hugmyndaríkt og jákvætt fólk. Fólk sem hefur einlægan áhuga á að gera samfélagið betra.

Baráttan fyrir betra samfélagi

Það tekur tíma að ná fram umbótum og varnarbaráttan mun taka tíma næstu árin. En sóknarfærin eru líka víða, margvísleg tækifæri liggja í loftinu. Stundum er það eina sem þarf til að breyta slíkum tækifærum í atvinnu eða aukin lífsgæði íbúanna, að vinna heimavinnuna kröftuglega og tala máli svæðisins skörulega.

Í þessa vinnu, baráttuna fyrir betra samfélagi á Ströndum eru þau sem skipa V-listann reiðubúin. Við erum tilbúin til að sitja óteljandi fundi til að finna lausnir og ná árangri, bæði innan sveitarfélagsins og utan, á Vestfjarða- og landsvísu. Okkur finnst gaman á fundum þar sem mál eru krufin til mergjar og leyst. Það munum við gera með glöðu geði og því er tilvalið fyrir íbúa sveitarfélagsins að nýta krafta okkar í að leggja á ráðin um margvísleg framfaramál.

Okkur á V-listanum finnst gaman að hugmyndavinnu og erum tilbúin til að setja á blað margvíslegar lýsingar á verkefnum og aðstæðum, Strandabyggð til heilla. Slíkir pappírar og áætlanir eru oft forsenda fyrir umbótum og framkvæmdum, skynsamlegri ákvarðanatöku og forgangsröðun. Við erum til í að verja tíma okkar í að lesa lög og reglugerðir og setja okkur inn í mál og málaflokka. Við erum til í að skrifa óteljandi bréf og erindi, semja og senda áskoranir og ályktanir í allar áttir. Og við heitum því að berjast af krafti fyrir hagsmunamálum íbúa Strandabyggðar, stórum og smáum.

Kosningabaráttan framundan

Það styttist í kosningadag. Framundan er kosningabarátta þar sem V-listinn mun kynna sín stefnumál og frambjóðendur. Meðal annars verða send út dreifibréf, birtar greinar á vefnum og haldinn kynningarfundur. Vonandi verður einnig haldinn sameiginlegur fundur framboðanna í Strandabyggð. Við vonum að íbúar Strandabyggðar hafi gaman af kosningabaráttunni og við hvetjum þá til að nýta kosningarétt sinn þann 29. maí.

Jón Jónsson á Kirkjubóli,
skipar 1. sæti V-listans í Strandabyggð