13/11/2024

Ályktun um vegamál frá Fjórðungssambandinu

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur nú sent frá sér ályktun dagsetta 15. apríl um þá samgönguáætlun sem liggur fyrir Alþingi. Hefur ályktunin sem er birt hér að neðan verið send Alþingi og ríkisstjórn. Fram kemur í fréttatilkynningu að Fjórðungssambandið muni einnig nýta sér umsagnarrétt og skila ítarlegra áliti til samgöngunefndar Alþingis. 

Samstaða er meðal sveitarfélag á Vestfjörðum um samgöngumál á Vestfjörðum og birtist hún í samþykkt 49. Fjórðungsþings Vestfirðinga frá september 2004 um samgönguáætlun Fjórðungssambands Vestfirðinga.
Fjórðungssamband Vestfirðinga leggur áherslu á að samgönguáætlun sambandsins gangi eftir og lýsir jafnframt yfir miklum áhyggjum af áhrifum samgönguáætlunar stjórnvalda fyrir árin 2005-2008 á efnahagslíf á Vestfjörðum. Samgönguáætlun endurspeglar efnahagsstefnu stjórnvalda, sem er að draga úr þenslu í ríkisfjármálum vegna stórframkvæmda sem stjórnvöld hafa komið að í öðrum landshlutum. Seinkun framkvæmda sem af þessu leiðir er hinsvegar á skjön við áætlun stjórnvalda um uppbyggingu Vestfjarða og birtist í nýlegri skýrslu um Vaxtarsamning fyrir Vestfirði.
Spár hafa gott betur gengið eftir um hækkun gengis íslensku krónunnar og þeim erfiðleikum sem það veldur útflutningsatvinnuvegum. Undirstaða atvinnulífs á Vestfjörðum eru útflutningsgreinar; sjávarútvegur, iðnaður og nú í vaxandi mæli ferðaþjónusta. Þensla í öðrum atvinnugreinum líkt og hefur gerst mjög víða um land hefur ekki náð til svæðisins. Því eru Vestfirðingar að taka verulega á sig þessa uppbyggingu sem nú á sér stað í öðrum landshlutum.

Á sama tíma eiga sér einnig stað breytingar í þungflutningum af sjó og á land. Þrátt fyrir miklar framkvæmdir í endurbótum á vegakerfi Vestfjarða eru enn eftir mislangir vegakaflar með óbundnu slitlagi, sem eru um leið ekki reiknaðir fyrir slíka aukningu þungaflutninga. Þessi kaflar eru nú flöskuhálsar í landflutningum og hafa nú þegar valdið hækkun flutningskostnaðar, sem kemur til viðbótar þeim efnahagsáhrifum sem áður er lýst.

Enginn annar landshluti býr við þessar aðstæður og það er því sanngjörn krafa í forgangsröðun í samgönguáætlun að verkefni þar séu sett í forgang annarra framkvæmda. Með þeim hætti er að hluta brugðist við samdrætti í efnahagslífi á Vestfjörðum á uppgangstímum í öðrum landshlutum, bætt samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja og er í takt við stefnumörkun stjórnvalda um uppbyggingu
svæðisins.