23/12/2024

Ályktun um raforkumál

Þó ótrúlegt kunni að virðast er Valgerður Sverrisdóttir er bæði ráðherra raforkumála og byggðamálaStjórn Búnaðarsambands Strandamanna hefur sent frá sér ályktun þar sem harðlega er mótmælt hækkunum á raforkuverði á Vestfjörðum. Í ályktun frá sambandinu segir að raforkuhækkanirnar sem nú dynji yfir, séu alvarleg aðför að atvinnulífi og búsetu í dreifbýli á Vestfjörðum. Því verði vart trúað að það hafi verið ætlun Alþingis með setningu raforkulaganna, að þvinga Orkubú Vestfjarða til að féfletta dreifbýlisbúa á Vestfjörðum.

Stjórn Búnaðarsambands Strandamanna skorar á hæstvirtan iðnaðarráðherra að skýra nú þegar frá því að íbúum dreifbýlis á Vestfjörðum verði bættur skaðinn, komi boðaðar orkuverðshækkanir til framkvæmda af fullum þunga.

Í ályktuninni segir ennfremur að þorri íbúa í dreifbýli á Vestfjörðum sé sauðfjárbændur en sauðfjárbændur hafi nú um skeið verið meðal tekjulægstu stétta landsins. Ný verðskrá Orkubús Vestfjarða leiði til þess að hækkanir á raforkuverði í dreifbýli á Vestfjörðum nema allt að 45%.

Í greinargerðinni kemur einnig fram að það séu um það bil 58 bú í Strandasýslu og boðaðar hækkanir nemi um 60-70 þús. kr. á hvert bú á ári. Þetta þýði allt að 15 þús. kr. útgjaldahækkun á ári, á hvern íbúa á þessum búum. Til samanburðar er sagt að 70.000 kr. séu tæplega ein mánaðarlaun sauðfjárbónda af búrekstrinum.

Loks segir í greinargerð að ef það hafi ekki verið vilji alþingismanna að svona færi þá vilji stjórn Búnaðarsambands Strandasýslu benda á, að sjái þeir ekki fyrir afleiðingar lagasetningar þá sé það engum til minnkunar að sjá að sér og leiðrétta mistökin.