20/04/2024

Alvöru fiskisúpa í Hólmavíkurhöfn

Óvæntur atburður átti sér stað í Hólmavíkurhöfn í gærkvöldi þegar höfnin breyttist í risastóran súpupott, en tugir tonna af sílaseiðum, líklega sandsíli eða marsíli, höfðu gert sig þar heimakomin og léku listir sínar. Á tíðum var um ótrúlegt sjónarspil að ræða þegar þúsundir síla tóku sig til og syntu í hringi og mynduðu eins konar niðurfall í sjónum. Á stundum var eins og sjórinn í höfninni væri bullandi heitur en það virtist krauma í honum eins og í suðupotti. Nokkur fjöldi manna var við höfnina að fylgjast með þessu sjónarspili og að leika sér að því að veiða sílin í fötur, en full fata fékkst í hverju kasti. Síldin lét sig heldur ekki vanta en í útjöðrum torfanna mátti sjá hana sprikla og gæða sér að veisluföngunum.

Samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands þá eru sandsíli og marsíli afar lík í útliti og nær ómögulegt fyrir aðra en fiskifræðinga að greina þau í sundur. Fullvaxin eru sandsíli og marsíli um 20 cm á lengd og tegundirnar eru báðar algengar í hlýsjónum fyrir sunnan og vestan land og skarast útbreiðslusvæði þeirra talsvert. Rannsóknir hafa þó sýnt að útbreiðslusvæði marsílis nær alla leið til Grænlands og virðist það því geta lifað í kaldari sjó en sandsíli. Marsíli virðast einnig vera, gagnstætt því sem áður var talið, talsvert algengari en sandsíli hér við land.

Á þessari síðu hjá Vísindavef HÍ er að finna upplýsingar um þessi síli, ásamt upplýsingum um trönusíli sem eru nokkuð stærrri.

480-sili-i-holmhofn5 480-sili-i-holmhofn3 480-sili-i-holmhofn4 480-sili-i-holmhofn2 480-sili-i-holmhofn1

Ljósm.: Sigurður M. Þorvaldsson