22/12/2024

Allt á fullu í Grýluhelli

{mosvideo xsrc="grylukvaedi" align="right"}Það er allt á fullu þessa dagana í Grýluhelli þar sem Grýla gamla hleypur öskrandi og æpandi um hellinn og gefur skipanir í allar áttir. Hálfsystkyni frægu jólasveinanna, þeirra sona Grýlu og Leppalúða, fá helst að kenna á því og þurfa að hlaupa á undan og eftir hverri sérvisku sem Grýlu dettur í hug hverju sinni. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is átti leið hjá hellinum í gærkveldi og náði kerlingunni upp á segulband. Með miklu hugrekki tókst honum að læða sér örlítið innfyrir hellismunnan og sá þá Stekkjarstaur og bræður hans vera að dunda sig við að gera sig ferðbúna fyrir jólin meðan öll hin afkvæmin hlupu æst fram og til baka í allskyns vinnuferðum um hellinn fyrir Grýlu sem undirbýr jólin á sinn eigin máta.

Stekkjarstaur kemur til byggða aðfarnótt 12. desember að venju og albræður hans fylgja svo í fótspor hans hver af öðrum til jóla. Það verður fylgst náið með þeim hér á strandir.saudfjarsetur.is í gegnum Jóladagatal Strandagaldurs, en vesalings systkyni þeirra, sem eiga önnur tröll að pöbbum þurfa að strita og púla á meðan í  Grýluhelli öll jólin. Leppur, Skreppur, Langleggur og Skjóða sjást voðalega sjaldan núorðið.