27/04/2024

Alls konar ást – á Hólmavík


Tónleikar sem bera hið ljúfa heiti Alls konar ást eru fyrsti viðburður Hamingjudaga á Hólmavík þetta árið. Þeir verða í Hólmavíkurkirkju og hefjast kl. 20 á mánudagskvöld, 25. júní. Að tónleikunum stendur kór kirkjunnar ásamt góðu samstarfsfólki og gestum. Efnisskráin er fjölbreytt en eitt er þar þó sammerkt: Fjallað er um ást frá ýmsum hliðum. Þjóðfræðistofa á Ströndum verður með skemmtileg innlegg milli laga og sérstakir gestir eru Gógó-píurnar sem gert hafa garðinn frægan, m.a. á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður.

Undirleikari er Stefán Steinar Jónsson og stjórnandi Viðar Guðmundsson. Aðgangseyrir er kr. 2.000 fyrir 13 ára og eldri.

Segja má að Hamingjudögum á Hólmavík sé þjófstartað með þessum upphafstónleikum. Dagskrá þeirra verður að öðru leyti frá 28. júní til 1. júlí eða frá fimmtudegi og fram á sunnudag.

Meðfylgjandi ljósmynd er frá Kaldalónstónum sem haldnir voru á Hólmavík á síðasta ári og kemur frá Ólafi J. Engilbertssyni.