01/05/2024

Allir velkomnir á skákmótið í Djúpavík

Verksmiðjan í DjúpavíkMinningarmót Páls Gunnarssonar í Djúpavík fer fram nú um helgina. Mótið hefst á föstudagskvöldið klukkan 20, þegar tefldar verða 3 umferðir, og heldur áfram á laugardaginn kl. 13. Skákáhugamenn á öllum aldri á Ströndum eru hvattir til að mæta. Allar upplýsingar um skákhátíðina í Árneshreppi er að finna á www.hatid2008.blog.is
 

Skákfélagið Hrókurinn stendur fyrir Minningarmóti Páls Gunnarssonar í samvinnu við heimafólk í Djúpavík, og má búast við skemmtilegri keppni í gömlu síldarverksmiðjunni. Meðal þeirra sem skráðir eru til leiks eru stórmeistararnir Henrik Danielsen og Helgi Ólafsson, alþjóðameistararnir Arnar Gunnarsson, Stefán Kristjánsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, og Björn Þorfinnsson forseti Skáksambands Íslands.

Heiðursgestur á mótinu er Paulus Napatoq, 16 ára gamall blindur piltur frá Grænlandi, sem lærði að tefla í fyrra í skákheimsókn Hróksins í Skoresby-sundi, sem er á 73. breiddargráðu. Paulus býr í litlu þorpi sem er afskekktasta byggð Norðurlanda, heila 800 kílómetra frá Kulusuk.