22/12/2024

Allir grunnskólanemar frá endurskinsvesti gefins

Fréttatilkynning frá Grunnskólanum á Hólmavík
Nú hefur sveitarfélagið Strandabyggð gefið öllum nemendum Grunnskólans á Hólmavík merkt endurskinsvesti til þess að tryggja öryggi þeirra í umferðinni. Mikilvægi þess að vera vel sýnilegur í umferðinni á jafnt við börn sem og fullorðna, hvort sem fólk er gangandi, hlaupandi eða hjólandi. Hildur Guðjónsdóttir aðstoðarskólastjóri fagnar því að Strandabyggð vilji tryggja að börnin okkar séu vel upplýst á dimmustu  mánuðum ársins til að forða slysum. Börnin eru hvött til að nota vestið á leið til og frá skóla og við önnur tækifæri, til dæmis á leið í íþróttir og tómstundastarf.

Mikilvægt er að foreldrar og starfsfólk skóla hvetji og veiti því athygli hvort börnin séu sjáanleg í umferðinni og að foreldrar séu sjálfir til fyrirmyndar og noti endurskinsmerki. Hannes Leifsson yfirlögregluþjónn á Hólmavík kom og ræddi við börnin og fræddi okkur um hvernig hægt er að auka öryggi allra í umferðinni margfalt með því að nota þessi einföldu, léttu og þægilegu öryggistæki sem endurskinsvesti og endurskinsmerki eru. Börn sem eru með endurskin sjást miklu fyrr en ella eða í um 100 metra fjarlægð frá ökutæki.

Nemendur fóru strax í vestin sín eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og voru þakklát sveitarfélaginu fyrir umhyggjuna sem þeim hefur verið sýnd með þessari góðu gjöf og í þakkarskyni tóku þau lagið með viðstöddum.

bottom

frettamyndir/2012/640-endurskinsvesti2.jpg

Allir vel merktir í myrkrinu – ljósm. frá Grunnskólanum á Hólmavík