22/12/2024

Álfar og tröll á of miklu skriði

Allra síðasta sýningarhelgi á Álfar og tröll og ósköpin öll á Galdraloftinu
hefst í kvöld. Um síðustu helgi var tilkynnt um að síðasta sýning væri í
uppsiglingu en nú hefur áformum um það verið breytt. "Það er bara svo mikið
skrið á mér að það er svo erfitt að hætta" segir Sigurður Atlason, "Ekki ósvipað
því að stöðva olíuskip, það tekur sinn tíma". Þó er ekki fjallað um olíuskip eða
nokkuð olíutengt á sagnakvöldinu þó margar magnaðar tröllasögur sem varða
olíuver séu komnar af stað. "Ég læt þær sögur alveg eiga sig, þær eru í senn
svo leiðinlegar og afspyrnu heimskulegar að meira að segja mér dettur ekki í
huga að leggja orð mín við þær" segir sagnamaðurinn, "auk þess sem þær eiga uppruna sinn í útlöndum".

Sigurður segir að það sé samt er aldrei að vita
hvað einum manni geti dottið í hug þegar andinn breiðir vængi sínum yfir hann og að það þurfa nú
einhverjir þessara álfa sem komu sögunum af stað að fara að fá heyra það. "Þetta eru líklega þessi téðu ósköpin öll sem koma fram í titli dagskráarinnar".

Panta þarf miða á
sagnakvöldin í síma 451 3525 eða í afgreiðslu Galdrasafnsins á Hólmavík og aðgöngumiðaverð er 1.500 krónur. Meðlimir
Tilberaklúbbsins fá 50% afslátt að venju á allar uppákomur á vegum Strandagaldurs. Stefnt er að sýningum í kvöld, annað kvöld og næsta laugardagskvöld ef þátttaka verður næg og þær hefjast kl. 21:00.

Heimasíða sagnakvöldsins Álfar og tröll og ósköpin öll er á slóðinni www.galdrasyning.is.