25/04/2024

Ákvörðunin stendur og barnaskólinn skal rifinn

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur ákveðið að halda sig við áform sín um að rífa gamla barnaskólann við Kópnesbraut og vatnstankinn ofan við Brennuhól og hefur tekið lægsta tilboðinu sem barst í verkið. Þrjú tilboð bárust og það lægsta að fjárhæð 660.000 krónur. Miklar umræður hafa verið hér á spjalltorgi strandir.saudfjarsetur.is með bón um að hlífa húsinu en sveitarstjórn samþykkti samhljóða að ekki væri neitt sem stæði í vegi fyrir því að heimila niðurrif þess. Málið var tekið fyrir á fundi byggingar- umferða- og skipulagsnefndar í gærdag og nefndin samþykkti samhljóða að ekki væri neitt sem stæði í vegi fyrir því að heimila niðurrif á húsinu og heimilar framkvæmdina fyrir sitt leyti.

Fjallað var einnig um málið á fundi byggingar- umferða- og skipulagsnefndar á fundi þann 8. nóvember s.l. þar sem nefndin beindi þeim tilmælum til sveitarstjórnar að lögformleg leið yrði farin í ákvörðun um mál er falla undir verksvið nefndarinnar en gerði þó ekki athugasemdir við fyrri ákvörðun sveitarstjórnar um niðurrif hússins. Dagrún Magnúsdóttir lét þá bóka sérstaklega að hún væri ekki sammála niðurstöðu sveitarstjórnar um niðurrif á húsinu, en varamaður sat í hennar stað á síðasta fundi byggingar- umferðar- og skipulagsnefndar.

Tölvupóstur frá Magnúsi Skúlasyni hjá Húsafriðunarnefnd ríkisins barst Strandabyggð nýverið þar sem hann fer þess á leit við sveitarstjórn að frestað verði niðurrifi fram yfir 30. nóvember 2006 en sveitarstjórn sér ekki ástæðu til að verða við því. Ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is mun reyna að kanna í dag hvert var efnislegt innihald bréfsins frá Húsafriðunarnefnd til sveitarstjórnar Strandabyggðar.

Fundargerðir sveitarstjórnar Strandabyggðar og nefnda sveitarfélagsins er hægt að finna hér á strandir.saudfjarsetur.is með því að smella hér.