19/04/2024

Áhyggjur af stöðu Vélsmiðjunnar

Atvinnumálanefnd Strandabyggðar lýsti á síðsta fundi nefndarinnar áhyggjum af stöðu Vélsmiðjunnar Vík á Hólmavík, en á dögunum var fyrirtækið auglýst til sölu. Sagði Kristján Jóhannsson framkvæmdastjóri þess og eigandi við það tækifæri að verkefnastaða væri erfið og húsnæðið heldur stórt fyrir eitt stöðugildi. Vélsmiðjan hefur verið starfrækt í um 50 ár og er samkvæmt bókun nefndarinnar eina vélsmiðjan og bifreiðaverkstæðið með starfsleyfi í sveitarfélaginu.

Ályktun Atvinnumálanefndar er á þessa leið:

"Atvinnumálanefnd Strandabyggðar lýsir yfir áhyggjum af þeirri stöðu sem rekstur Vélsmiðjunnar Vík er kominn í. Fyrirtækið sem hefur verið eitt af rótgrónustu fyrirtækjum í Strandabyggð og verið rekin í um 50 ár, er nú til sölu og komið hefur fram í fjölmiðlum að núverandi eigandi telji grundvöll fyrir rekstrinum brostinn. Vélsmiðjan er sú eina með starfsleyfi sem slík í sveitarfélaginu og ljóst að þjónusta við íbúa og ferðamenn mun skerðast mikið ef ekki er rekin vélsmiðja og bifreiðaverkstæði á Hólmavík."