22/12/2024

Áhersla lögð á framhaldsskólamenntun á Ströndum

Á árlegum fundi Strandabyggðar með fjárlaganefnd Alþingis var höfuðáhersla lögð á að undirbúningur að stofnun framhaldsdeildar á Hólmavík yrði hafinn árið 2012. Verkefnið var á Fjórðungsþingi Vestfirðinga valið eitt af 7 verkefnum í Sóknaráætlun Vestfjarða 2012, en vilji heimamanna er að ráðinn verði verkefnisstjóri til undirbúningsvinnu og þarfagreiningar vegna stofnunar framhaldsskóladeildar á Hólmavík sem þjónustað getur nemendur á Ströndum og í Reykhólasveit. Fyrirmynd verkefnisins er samstarf á milli Fjölbrautaskóla Snæfellinga og Vesturbyggðar þar sem boðið er upp á tveggja ára námsframboð á framhaldsskólastigi heima í héraði, en framhaldsskóladeildin í Vesturbyggð hefur haft umtalsverð jákvæð áhrif í för með sér á samfélög á sunnanverðum Vestfjörðum.

Markmið með verkefninu er eftirfarandi:

– Að bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi í heimabyggð á Ströndum með eflingu og þróun á samkennslu innan svæðisins í samstarfi við aðra starfandi framhaldsskóla
– Að draga úr brottfalli nemenda í framhaldsnámi með því að auka aðgengi og jafnrétti til náms með faglærðum kennurum í heimabyggð
– Að efla menntunarstig, atvinnulíf og samfélag á Ströndum og víðar 

Frá þessu segir á vef Strandabyggðar.