22/12/2024

Aðför að póstþjónustu

Grein eftir Bjarna Jónsson.
Sú aðför að póstþjónustu í dreifbýli sem nú á sér stað með lokun póstafgreiðslustaða og fækkun póstburðardaga fer fram í skjóli og á ábyrgð núverandi samgönguráðherra Samfylkingarinnar sem fer einn með 100% hlut ríkisins í Íslandspósti. Mér er til efs að jafnvel fyrrverandi samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins hefði liðið að svo freklega væri gengið á rétt landsbyggðarinnar. Ástæða er til að þau byggðarlög sem nú er ráðist gegn leyti réttar síns vegna þessarar fordæmalausu framgöngu.

Dregið úr þjónustu

Með lokun póstafgreiðslna er verið að draga úr þjónustu á viðkomandi svæðum og þjónusta landpósta mun ekki geta mætt þeirri þjónustuskerðingu að öllu leyti. Markmið laga um póstþjónustu er meðal annars að tryggja lágmarksfjölda afgreiðslustaða, og viðskiptaleg rök og meint hagræðing geta ekki eingöngu ráðið för þegar lagt er til að póstafgreiðslum vítt og breitt um landið sé lokað.

Samfylkingin gengur hreint til verks

Í ályktun flokksráðsfundar VG 29.-30. ágúst síðastliðinn er þess krafist að póstþjónusta sé rekin með almannahagsmuni í huga og án þess að íbúum á einstökum landsvæðum sé mismunað. Með því að skerða þjónustu við atvinnurekendur og almenning á fámennari svæðum er jafnræðisregla brotin. Einnig er vakin athygli á því að forsætisráðherra hafi þegar lýst því yfir að hann vilji selja póstþjónustu landsins til einkaaðila og ljóst er að með niðurskurði í póstþjónustunni er verið að sníða hana að markaðslögmálum og setja í söluvænlegar umbúðir. Horfið er frá því að reka póstinn sem grunnþjónustu og arðsemissjónarmið eru tekin við. Samfylkingin hefur nú það hlutverk að fylgja þeirri stefnubreytingu gagnvart landsbyggðinni úr hlaði og er óhætt að segja að hún gangi hreint til þess verks.

Bjarni Jónsson
Höfundur er sveitarstjórnarfulltrúi VG Skagafirði