04/10/2024

Á mörkum hins byggilega heims?

Forystufé við GrænanesStundum er talað um að Strandamenn búi á mörkum hins byggilega heims, en er það svo? Ég held raunar ekki, þrátt fyrir að hretið sem enn er ekki úr augsýn sé líklega með þeim ónotalegri. Það má þó telja víst að það verði brátt að baki og að Strandamenn muni standa nokkuð brattir eftir, nú sem ávallt áður.

Þó undirritaður sé fæddur fyrir miðja síðustu öld þá man hann ekki vorið 1949 nema eftir frásögn annarra sér eldri. Það vor var með eindæmum slæmt, aðstæður bænda allt aðrar og verri en nú, hey var víðast á þrotum og möguleikar að fá hey að nánast engir. Margir bændur á Ströndum urðu þá að standa hjá fénu sem kallað var, nýfædd lömbin voru skilin eftir inni en ærnar reknar í haga þar sem staðið var yfir þeim svo þær tylldu á beitinni.
 
Þessa tíma er ekki svo galið að rifja upp þegar okkur finnst vorið aldrei hafa verið verra, hretið það versta sem komið hafi og plágurnar steðji að úr öllum áttum. Þá er það samt svo að ekki þarf að horfa á marga fréttatíma í sjónvarpi til að sjá að okkar staða er nokkuð góð þrátt fyrir allt, svo við skulum bara taka vel við vorinu sem vonandi kemur innan skamms. Til að verma hug og hjörtu fylgja nokkrar hlýlegar myndir teknar á Bassastöðum 24. maí 2006.


Tjaldurinn stendur upp úr skaflinum.


Tjaldshreiður í skafli


Gelda lambgimbrin bar í moðhaugnum


Er þetta túnið sem borið var á fyrir viku?


Lilja bóndi stendur enn upp úr skaflinum


Þessar stóðu af sér hretið við Grænanes. Forystuféð heldur vöku sinni meðan hinar þiggja heyið sem þeim var fært.

Ljósm. Guðbrandur Sverrisson