30/04/2024

Þar fór það

Ef einhverjum hefur dottið í hug að Brandur á Bassastöðum nennti að smala saman fénu sínu á haustin, þá er það helber misskilningur. Kall sást nefnilega núna 15. apríl vera að reka heim síðustu lömbin úr túninu eða réttara sagt lét konuna reka, en luntaðist sjálfur eftir hópnum á Patrolnum. Svona beitarharka var víðast aflögð skömmu eftir landnám en virðist vera að skjóta rótum á ný hjá einstaka bændum af gömlu kynslóðinni. En hvað um það, þarna voru þrjú lömb, tvö af heimastofni á Bassastöðum en eitt frá Kaldrananesi sem kall hefur líklega tekið í fóður en sett til beitar.

Guðbrandi sjálfum segist svo frá að þegar gengið var til helgrar jólahátíðar hafi enn vantað tvær ær tvílemdar  á Bassastöðum. Mun hin fyrri hafa verið tekin á hús ásamt lömbum sínum 23. febrúar, eftir bærilega vist í hinu varasama Þjóðbrókargili, þar sem skessan Þjóðbrók gerði garðinn frægan á sínum tíma. Þeirri seinni var haldið til beitar þar til nú. Að vísu sást ærin ekki, hefur líklega verið gengin á vit feðra sinna eða mæðra þegar tími þótti hæfilegur til að taka á hús.

 Við Þjóðbrókargil

Sú hyrnda var handsömuð á brúnni yfir Þjóðbrókargilið 23. febrúar

Teknar á hús 23. febrúar

landbunadur/480-brandur-kindur2.jpg

Þessi voru tekin af beit 15. apríl – Ljósm. frá Guðbrandi Sverrissyni