23/04/2024

Álagablettir á Ströndum

645-saevangur Laugardaginn 7. september (þjóðtrúardaginn mikla, 7-9-13) klukkan 20:00 verður haldin kvöldskemmtun í Sauðfjársetrinu á Ströndum. Þar verður opnuð sögu- og listasýningin Álagablettir, auk þess sem flutt verður tónlist og ýmis skemmtilegur fróðleikur. Sýningin mun verða uppi á listasviðinu í Sævangi út næsta sumar. Dagrún Ósk Jónsdóttir á Kirkjubóli hefur haft veg og vanda af undirbúningi sýningarinnar, með dyggri aðstoð föður síns. Mun Dagrún segja frá íslenskri þjóðtrú og uppsetningu sýningarinnar og þjóðfræðingarnir Rakel Valgeirsdóttir og Jón Jónsson miðla fróðleik um álagabletti í skemmtilegum erindum.

Frítt verður inn á kvöldskemmtunina sjálfa og sýninguna og aðrar sýningar á Sauðfjársetrinu í tilefni dagsins, en á boðstólum í Kaffi kind verður dulmagnað kvöldkaffi sem kostar 1000 kr. á mann. Allir eru hjartanlega velkomnir!

Á álagablettasýningunni sjálfri er fjallað um fjölmarga álagabletti á Ströndum í máli og myndum, auk þess sem listrænar ljósmyndir og ljóðrænir textar setja svip á sýninguna. Alls hafa um 70 slíkir blettir á Ströndum verið kortlagðir, myndaðir og skráðir í tengslum við uppsetningu á sýningunni.

Eins er á sýningunni hægt að hlusta á mjög skemmtilegar hljóðskrár með viðtölum við Strandamenn sem varðveittar eru á Árnastofnun, teknar upp í kringum 1970. Þar segja Strandamenn frá álagablettum sem þeir þekkja og segja sögur af því sem gerst hefur þegar hróflað hefur verið við slíkum blettum eða þeir slegnir í trássi við þá bannhelgi sem á þeim hvílir. Mjög magnaðar frásagnir eru þar innan um.

Uppsetning sýningarinnar Álagablettir er styrkt af Safnasjóði.