12/12/2024

Vorþing Þjóðfræðistofu á laugardag

TorfborgÍ dag laugardag, þann 11. apríl, klukkan 13:30, mun Þjóðfræðistofa blása til vorþings á Hólmavík og kynna ýmis verkefni sín og samstarfsmanna. Fjallað verður m.a. um þjóðerni og íróníu. Sýnd verða sýnishorn úr heimildamyndum í framleiðslu Þjóðfræðistofu, svo sem Leitin að Gísla Suurinpojan, sem fjallar um ferð finnsks þjóðfræðings á slóðir Gísla sögu Súrssonar; Hannes Lárusson myndlistarmaður og forstöðumaður Íslenska bæjarins og Magnús Rafnson sagnfræðingur og stjórnarformaður Strandagaldurs stíga á stokk og ræða íslenskan torfbæjararf. Þá mun Dr. Sigurjón Baldur Hafsteinsson mannfræðingur og lektor í safnafræðum við HÍ kynna þá  nýju námsbraut.

Að lokum verður fjallað um hinn goðsagnakennda mjöð og gestum boðið að bragða á slíkum drukk.

Vorþingið mun fara fram á Café Riis á Hólmavík og hefst eins og fyrr segir klukkan 13.30. Allir áhugamenn velkomnir og 
sérstaklega þeir sem hafa upplýsingar um torfbæi á Ströndum. Frekari upplýsingar í dir@icef.is.