22/12/2024

Vitinn á Hólmavík málaður

645-viti1
Nú er verið að mála vitann á Hólmavík og sjá starfsmenn Strandabyggðar og vinnuskólinn um verkefnið. Vitinn á Hólmavík nálgast nú 100 ára aldurinn. Tvennum sögum fer af því hvort hann var reistur 1914 eða 1915, en alla vega var ekki kveikt á honum fyrr en 1915, þar sem tafir urðu á afhendingu ljóstækja vegna heimsstyrjaldarinnar fyrri. Sama ár voru teknir í notkun vitar í Grímsey og á Malarhorni, en frumkvæði að þessari vitavæðingu við Steingrímsfjörð átti norska skipafélagið Det Bergenske Dampskipsselskab. Það hafði þá samið um siglingar til Íslands og í kringum landið. Vitinn er í rauninni áttstrent ljóshús, norsk smíði úr járnsteypu, eins og oftast er sett ofan á járngrind eða steypta vitabyggingu. Hann var upphaflega rauður með hvíta rönd um sig miðjan.

Í fyrstu var steinolíulampi í vitanum og þess vegna er reykrör upp úr honum miðjum, en frá 1925 var gas notað við lýsinguna. Svo var allt þar til rafmagnið leysti gasið af hólmi 1963. Tuttugu árum seinna var vitinn afhentur sveitarfélaginu til eignar og umsjónar.

Árið 1915 voru einnig sett upp ný innsiglingarmerki á Hólmavík og voru þá þau gömlu sem fyrir voru rifin niður. Nýju merkin voru kringlóttar hvítar vörður, um það bil tveggja metra háar. Rautt ferhyrnt toppmerki var á hinni neðri, en rautt þríhyrnt toppmerki á efri vörðunni og benti horn þríhyrningsins upp. Neðra merkið var 12 metra yfir sjávarmáli en hið efra 17 metra og fjarlægðin á milli merkjanna 29 metrar.

645-viti2

Vitinn á Hólmavík málaður – ljósm. Jón Jónsson