27/04/2024

Allir vegir færir

Vefnum strandir.saudfjarsetur.is barst nú í dag skýrslan Allir vegir færir sem unnin er af sérstakri nefnd sem Hólmavíkurhreppur skipaði til að vinna hugmyndavinnu í atvinnumálum. Einnig fylgdi hugmyndalisti nefndarinnar þar sem settar eru fram margvíslegar hugmyndir um hina og þessa möguleika til uppbyggingar og eflingar atvinnulífs á Ströndum. Hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps fjallaði á fundi þann 24. maí um skýrslu og hugmyndir nefndarinnar og samþykkti að þakka störfin og óska eftir að nefndin starfi áfram. Jafnframt taldi hreppsnefnd nauðsynlegt að ráða starfsmann til að vinna að atvinnusköpun og byggðaþróun í sveitarfélaginu og var sveitarstjóra falið að hafa samband við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og leita eftir því að fá starfsmann á svæðið. Hér má nálgast skýrsluna sjálfa og hérna hugmyndalistann.

Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri Hólmavíkurhrepps segir að eftir að hún hafði samband við Atvinnuþróunarfélagið hafi borist tilboð frá því þann 5. júní þess efnis að AtVest væri tilbúið til að greiða helming launa starfsmanns á svæðinu ef sveitarfélögin í Strandasýslu greiddu hinn helming auk rekstrarkostnaðar. Sá aðili yrði þá atvinnu- og ferðamálafulltrúi hér í Strandasýslu. Skömmu síðar hafi hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps samþykkt að taka jákvætt í erindi AtVest, en kanna viðhorf annarra sveitarfélaga og hversu mörg vilji taka þátt í verkefninu. Þessi sameiginlega ákvörðun sveitarfélaganna hafi ekki enn verið tekin. 

Aðspurð segir Ásdís jafnframt að hreppsnefnd hafi samþykkt þá stefnu og tillögur nefndarinnar um næstu skref sem lögð eru til í skýrslunni Allir vegir færir