13/11/2024

Vinstri grænir með þrjá þingmenn í kjördæminu

Samkvæmt fréttum rúv.is af nýjum þjóðarpúlsi Gallup er staðan sú í Norðvesturkjördæmi að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri-Grænir myndu hvor flokkur um sig fá þrjá kjördæmakjörna þingmenn ef kosið yrði nú. Átta þingmenn eru kjördæmakjörnir og fengju Samfylking og Framsókn hvort um sig eitt sæti af þeim sem eftir væru. Frjálslyndir næðu síðan í níunda þingsætið sem stendur til boða, uppbótar- eða jöfnunarsætið sem byggir að hluta til á atkvæðum sem falla dauð í öðrum kjördæmum.

Samkvæmt þessu yrðu þingmenn Norðvesturkjördæmis eftir næstu kosningar þeir Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson úr Sjálfstæðisflokki, Jón Bjarnason, Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir og Björg Gunnarsdóttir úr Vinstri grænum, Magnús Stefánsson úr Framsóknarflokknum, Guðbjartur Hannesson úr Samfylkingu og Guðjón Arnar Kristjánsson úr Frjálslynda flokknum. Ef niðurstaðan yrði þessi eru 7 karlar á þingi í kjördæminu og 2 konur, báðar frá Vinstri-Grænum.

Í heildina fengi Sjálfstæðisflokkurinn 24 þingmenn samkvæmt könnuninni, tveimur fleiri en í síðustu kosningum. Fjöldi þingmanna vinstri grænna myndi þrefaldast frá síðustu kosningum, þeir eru 5 á yfirstandandi þingi en yrðu 15 ef kosið yrði í dag. Samfylkingin tapaði 6 mönnum og fengi 14. Framsóknarflokkurinn fengi 6, helminginn af kjörnum þingmönnum árið 2003. Loks fengi Frjálslyndi flokkurinn 4, jafnmarga og í síðustu kosningum.