30/10/2024

Vilja hefja veiðar 1. mars

Grásleppunefnd Landssambands smábátaeigenda kom saman í gær til að ræða komandi grásleppuvertíð. Á grundvelli samþykktar aðalfundar LS ákvað nefndin að leggja til við sjávarútvegsráðuneytið að tími til grásleppuveiða á komandi vertíð verði 50 dagar. Þannig fengi hver veiðileyfishafi 50 veiðidaga sem hann gæti ráðið hvenær hann nýtti á sínu veiðisvæði á tímabilinu 1. mars til 15. ágúst. Um nýmæli er að ræða að veiðimenn fái að velja veiðitímann sjálfir innan tímabilsins, þó þannig að um samfellda nýtingu daga væri að ræða. Nefndin telur að slíkt hagræði skili aukinni sókn og leggur því til að dögum á veiðitímabili verði fækkað úr 60 í 50.

Ennfremur ræddi nefndin um verð á komandi vertíð. Nefndin fellst ekki á hugmyndir einstakra kaupenda um verðlækkun. Að vandlega íhuguðu máli ákvað nefndin að leggja til við veiðimenn að miða við 700 Evra lágmarksverð fyrir fulluppsaltaða tunnu af grásleppuhrognum.

Grásleppunefnd LS var á einu máli um að upplýsingafundir veiðimanna og framleiðenda, LUROMA, væru mjög gagnlegir og til þess fallnir að veita nauðsynlegar upplýsingar um stöðu grásleppumála og efla samskipti meðal þessara aðila.

Í grásleppunefnd Landssambands smábátaeigenda eru Guðmundur Jónsson Hafnarfirði, Gunnar Gunnarsson Húsavík, Reimar Vilmundarson Bolungarvík og Viggó Jón Einarsson Hofsósi.