18/04/2024

Viðgerðum lokið á strandir.saudfjarsetur.is

.Eins og margir lesendur strandir.saudfjarsetur.is urðu varir við þá varð fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is fyrir barðinu á tölvuþrjótum í fyrrinótt. Vefurinn lá niðri um stund vegna þessa en fótur og fit varð uppi hjá ritstjórn vefjarins þegar spjöllin uppgötvuðust. Fyrst um sinn var álitið að ráðist hefði verið á vefumsjónarkerfið, en þegar betur var að gáð og kafað ofan í vandamálið þá kom í ljós að farið hafði verið inn í gegnum Ftp-vélþjón hjá þeim sem sér um hýsingu vefjarins. Engin gögn töpuðust úr gagnagrunninum.

Vélþjónninn er orðinn fullgamall og því er í bígerð að færa hann yfir á aðra vél til að fyrirbyggja að svona árásir valdi síður truflanir á starfsemi vefjarins. Aðstandendur strandir.saudfjarsetur.is með Áka Guðna Karlsson forritara vefjarins í fararbroddi, hafa staðið í ströngu undanfarinn sólarhring við að koma vefnum í samt lag en nú er viðgerðinni lokið og allt komið heim og saman.

Tölvuþrjótarnir eru brasilískir og kalla sig Noturnos Crimez. Marga slíka hópa er að finna í veröldinni sem gera sér að leik að komast inn í tölvukerfi og vinna skemmdarverk á þeim. Þeir skilja gjarnan eftir sig vegsummerki, eins og þeir hafa tekið eftir sem fóru árla föstudagsmorguns inn á strandir.saudfjarsetur.is, en táknmynd þrjótanna var þá komið í stað hefðbundinnar síðu.