22/12/2024

Við viljum velferð!

Kristjana og KatlaGrein eftir Kötlu Kjartansdóttur og Kristjönu Eysteinsdóttur
Við frambjóðendur á V-listanum setjum velferð íbúanna í forgang. Við viljum velferð fyrir alla, ekki bara fyrir okkur sjálf. Við, Katla og Kristjana, erum heilbrigðar, ungar konur sem förum allra okkar ferða án verulegra vandkvæða. En það gæti breyst á morgun. Við gætum lent í slysi og þurft að komast um í hjólastól eftir það. Okkur finnst t.d. mikilvægt að breyta skúringakompunni í félagsheimilinu í klósett fyrir fatlaða, eins og hún átti upphaflega að vera. Það er auðvitað bara örlítið dæmi um það sem betur má fara svo allir eigi auðveldara með að njóta lífsins hér í Strandabyggð. En okkur finnst svona hlutir skipta máli.

Gott aðgengi að ýmsum öðrum stöðum hér á svæðinu þarf einnig að vera fyrir hendi. Það er ótækt að hafa opinbera þjónustu í húsnæði sem enginn kemst að nema þeir sem eru ungir og fullfrískir. Að flestu leyti hefur velferðamálum hér verið sinnt ágætlega en nú á þessi málaflokkur í auknum mæli að færast yfir til sveitarfélagana og þess vegna þurfum við að vera viðbúin. Hvernig viljum við haga þessum málum? Hvað finnst okkur mikilvægt að lagfæra? V-listinn vill einfaldlega að öllum líði vel hér og finnist þeir vera velkomnir, bæði karlar og konur, ungir sem gamlir, fatlaðir og ófatlaðir. Fyrir okkur er það alvöru velferð. Hitt heitir félagsleg mismunun og hana viljum við ekki sjá hér.

En hvenær líður okkur vel?

Sem betur fer erum við ekki öll sammála um það. Við höfum öll fjölbreyttar þarfir og það sem einum finnst bráðskemmtilegt, finnst öðrum hundleiðinlegt. Við erum þó flest sammála um það að matur, fatnaður og húsaskjól séu okkar grunnþarfir en það virðist samt ekki duga til þess að okkur líði vel. Við viljum eitthvað meira og okkur langar í eitthvað fleira. Hér er ekki verslunarmiðstöð og þess vegna er ekki hægt að hanga þar og kaupa „allskonar fyrir allskonar“. Við sem hér búum sækjum mörg okkar andlegu næringu í nærliggjandi náttúru – hafið, fjöruna, mosann og döggina. Hér er útsýnið fagurt út á fjörðinn og allt um kring eru blómlegar sveitir sem gaman er njóta. Þangað er hægt er að sækja sér margvíslega afþreyingu bæði vetur, sumar, vor og haust.

Þá komum við að tómstundunum. Við hjá V-listanum erum mikið tómstundafólk. Höfum mikinn áhuga á t.d. skíðagöngu, fuglaskoðun, dansi, prjónaskap og söng. Við viljum stuðla að fjölbreyttu og góðu tómstundastarfi, einsog verið hefur en vera í betra samstarfi við þau fjölmörgu félög sem eru starfrækt hér á svæðinu. Við viljum nýta félagsheimilið betur og kaupa hljóðkerfi. Við viljum ráða tómstundafulltrúa í 100% stöðu, hugsanlega í samvinnu við nágrannasveitarfélög. Við viljum koma upp gönguskíðasvæði, útitafli og strandblakvelli við tjaldsvæðið. Allt ódýrar framkvæmdir sem gefa mikið til baka. Við viljum einnig gefa fólki tækifæri til að svala tómstunda- og félagsþörf sinni með aðeins fjölbreyttari hætti en hingað til.

Ungir og gamlir þyrftu að fá tækifæri til að blanda meira geði sín á milli. Ungum piltum finnst t.d. fátt skemmtilegra en að dansa við gamlar konur. Það sáum við vel á dansnámskeiðinu sem eldri borgarar héldu fyrir krakkana í skólanum. Ungur nemur hvað gamall temur segir máltækið, en unga fólkið hefur líka margt að gefa og kenna þeim sem eldri eru. Tölvunámskeið þar sem unglingar kenna eldri borgurum væri t.d. alveg bráðsnjallt. Svo mætti hugsa sér meira samstarf á milli skólanna og Heilbrigðisstofnunarinnar. Til dæmis einn dag í viku þar sem börnin færu og tækju saman lagið fyrir gamla fólkið.

Hugmyndirnar eru óteljandi og þær eru líka ókeypis – næst á dagskrá er bara að hrinda þeim í framkvæmd!

Framkvæmdir og velferð

Í því árferði sem nú ríkir er ekkert grín að tala um framkvæmdir, þess vegna leggjum við hjá V-listanum áherslu á að fara varlega í öll loforð um nýframkvæmdir. Satt að segja stefnum við bara alls ekki á rándýrar framkvæmdir, fjárhagur sveitarfélagsins leyfir það einfaldlega ekki. Við teljum mun skynsamlegra að huga að því sem vel hefur verið gert og leita ódýrra lausna í góðu samráði við íbúa.

Mikilvægir hlutir þurfa ekki endilega að kosta mikið. Stundum er nóg að leggja bara aðeins hausinn í bleyti og eyða smá aukatíma í að leita að góðum tilboðum.

Við viljum að öll börnin í Strandabyggð komist í skólann sinn, hvar svo sem þau búa og á hvaða aldri sem þau eru. Það er sjálfsögð grunnþjónusta sem sveitarfélagið á að sjá um að veita. Í tengslum við slíka þjónustu þarf líka hugmyndavinnu um lausnir og hagkvæmni fyrir sveitarfélagið. Þannig er t.d. valkostur að í stað þess að kaupa nýjan skólabíl sem rúmi öll leikskóla- og grunnskólabörn í sveitunum sunnan Hólmavíkur sé leigð rúta sem ekki er í mikilli notkun yfir vetrartímann. Svona mál þarf að skoða.

Við lítum að sjálfsögðu á leikskólann sem fyrsta skólastigið, þar sem fram fer mikilvæg menntun og undirbúningur fyrir annað nám. Við teljum mikilvægt að meira samstarf sé á milli skólastigana. Ekki síst til þess að stökkið á milli þeirra verði kannski mýkra en ella. Í bæði leik- og grunnskólanum fer nú fram frábært starf sem við viljum endilega efla og bæta enn frekar. Til hagræðingar viljum við líka sameina núverandi skólanefndir í eina fræðslunefnd sem fjalli þá um alla 3 skólana: leik-, tón- og grunnskóla. Oft má samnýta t.d fræðslufyrirlestra fyrir starfsfólk þeirra, foreldra og börn, og við viljum að sveitarfélagið samþykki og vinni eftir stefnu í skólamálum og leggi áherslu á margvíslegt forvarnarstarf, svo sem eineltisáætlun og viðbragðsáætlun vegna áfalla. Eineltisáætlun ætti raunar að samþykkja fyrir allar stofnanir og vinnustaði sveitarfélagsins.

Ekki verður öllu lengur horft fram hjá því að ástand húsnæðis Grunnskólans er ekki boðlegt og viðhald nauðsynlegt. Raki er sýnilegur á viðkvæmum stöðum, sem fer t.d. illa með dýr og fín hljóðfæri sem skólinn á. Þar fyrir utan er auðvitað ljóst að viðhaldsfælni leiðir bara til aukins kostnaðar á endanum, auk þess sem verkefnin virðast óyfirstíganleg ef viðhaldi er ekki sinnt reglulega.

Þá teljum við á V-listanum mikilvægt að kannaður verði af alvöru möguleikar á að stofnuð verði framhaldsdeild hér á svæðinu, jafnvel í samvinnu við nærliggjandi sveitarfélög á Ströndum, Reykhólasveit og Dölum. Að okkar mati er varla tækt að senda börn héðan, frá foreldrum sínum, í framhaldsskóla strax við 16 ára aldur. Ef hægt væri að koma á framhaldsdeild sem að lágmarki byði upp á nám fyrir fyrstu tvo bekki framhaldsskóla væri það strax til bóta.  En það er alveg ljóst að vanda þarf sérstaklega undirbúning að slíkri starfsemi.  Frumforsendan er auðvitað sú að börnin okkar vilji nýta sér slíka lausn. Þetta er eitt af okkar hjartans málum, enda skipulagði sú sem skipar 2. sætið á V-listanum nýverið fræðslufund með núverandi sveitarstjórn um málið. Þá var Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra einnig látin svara spurningum um þetta síðast þegar hún heimsótti svæðið og tók hún jákvætt í málið.

Við á V-listanum gætum lengi haldið áfram að telja upp það sem við viljum sjá hér til að efla almenna velferð en ætli við látum þetta ekki duga í bil.  Við hvetjum kjósendur líka til að kynna sér vel þau málefni sem V-listinn hefur verið að kynna síðustu daga. Við sjáumst svo bara hress í kosningakaffinu á laugardaginn, burtséð frá því hvort ÞÚ setur x við J eða V (sem er auðvitað eina V-itið).

Katla Kjartansdóttir og Kristjana Eysteinsdóttir,
skipa 2. og 4. sætið á V-listanum í Strandabyggð