02/05/2024

Á réttri leið

Grein eftir Jón Gísla Jónsson
Flokkarnir sem nú bjóða fram lista í komandi sveitarstjórnarkosningum bjóða öllum íbúum í kaffi og veitingar í Félagsheimilinu á kjördag milli klukkan tvö og fimm. Það er mikilvægt fyrir alla að kjósa því kosningin er í raun hornsteinn lýðræðisins sem við á J-listanum höldum hátt á lofti.

Þótt Hólmavík sé rótgróið sjávarþorp hefur atvinnustarfsemi þar þróast síðustu áratugi í að verða þjónustu- og ferðamannastaður. Þetta teljum við að þurfi ekki að stangast á heldur geti útgerð, þjónusta og ferðaþjónusta vel farið saman enda ólíklegt að nokkur vilji að þjónusta skerðist, ferðamannastraumur fari minnkandi, né að útgerð dragist saman. Við hjá J listanum viljum stuðla að því að þorpið með allri sinni sérstöðu og atvinnustarfsemi geti eflst og dafnað í sátt og sameiningu. Það er einmitt fjölbreytnin í atvinnulífinu hérna á Hólmavík sem gerir þorpið okkar að þeim vænlega búsetukosti sem það er.

Sveitirnar í byggðarlaginu hafa einnig sína sérstöðu og einkennast af þeim búskap sem þar hefur verið í gegnum árin. Það eru ekki öll sveitarfélög sem geta státað af svo mörgum bújörðum sem leggja upp úr því að hafa bæina og umhverfið snyrtilegt.

Urðunnarstaður Sorpsamlags Strandasýslu verður seint talinn með fegurri stöðum innan sveitarfélagsins. Miklar breytingar hafa orðið á sl. mánuðum í sorphirðu og förgun og í kjölfar þeirra breytinga þarf að endurskoða og endurskilgreina stærð og umfang á urðunarstað. Við teljum að það sé tækifæri nú til að gera gangskör í umbótum á urðunarstaðnum, loka og tyrfa fullnýtt svæði sem hægt væri að gróðursetja skjólbelti á. Stefnt er að því að hirða lífrænt sorp frá íbúum og skapast þar tækifæri til moltugerðar sem enn minnkar magn sorps til urðunar. Með stórlega minnkandi urðun þarf að skilgreina svæðið upp á nýtt í samstarfi við Sorpsamlagið.

Í Skothúsvík (Réttarvík) hefur verið vinnustaður og geymslustaður sjómanna í gegnum árin, þar sem þeir hafa haft pláss til að vinna sína vinnu. Svæðið þjónar því hlutverki ágætlega en á seinni árum hefur ýmisskonar dót safnast þar fyrir og er nú dreift um stórt svæði. Þetta þarf að laga og er byrjað að skipuleggja sérstakt geymslusvæði fyrir dót af þessu tagi. Nýtt gámasvæði var útbúið á síðasta ári og er stefnt er að því að allir gámar sem standa á víð og dreif um svæðið verði komnir þangað innan skamms. Með nýju gámasvæði og geymslusvæði teljum við að hægt sé að gera ásýnd Skothúsvíkurinnar miklu betri og treystum því að allir vilji taka höndum saman um úrbætur þar.

Við flugvöllinn hefur verið sérhæft atvinnusvæði undir steypuframleiðslu. Eftir skiptingu Kálfaneslandsins hefur sveitarfélagið ekki lengur yfir þessu svæði að ráða og verður hreinsað þar til í sumar og starfsemin flutt annað en ekki hefur verið úthlutað öðru svæði ennþá.

Unnið hefur verið í að bæta vinnuaðstöðu útgerða á tanganum við höfnina. Þar hafa menn tekið til og reynt að fegra umhverfið en betur má ef duga skal. Hafa ber í huga að þetta afmarkaða svæði er vinnusvæði en ásýnd þess er ekki góð eins og staðan er í dag. Annað hvort verður að fegra og bæta það sem fyrir er í samvinnu við útgerðarmenn eða leita annarra leiða sem hlutaðeigandi geta sætt sig við.

Það er ljóst að íbúar og fyrirtæki í Strandabyggð eru á réttri leið og ánægjulegt að sjá að fleiri séu á þeirri línu að vinna vel að  umhverfismálum. Það er ljóst að við hjá J-listanum komum til með að vinna áfram að þessum málum sem og öðrum með hag íbúa í huga. Saman gerum við gott sveitarfélag betra.

Ég vil hvetja alla til að nýta kosningaréttinn og setja X við J.

Jón Gísli Jónsson