30/10/2024

Verkefni lögreglunnar í liðinni viku

Löggubangsi í leikskólanumÍ fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að í síðastliðinni viku hefur lögregla haldið áfram því umferðarátaki  sem verið hefur í gangi að undanförnu, stöðvað bifreiðar og talað við ökumenn. Nokkuð var um að höfð voru afskipti af því að menn væru að tala í síma við akstur og enn og aftur vill lögregla árétta við ökumenn að nota viðeigandi búnað. Þá hefur lögregla þurft að hafa afskipti af ökumönnum sem ekki hafa skafið af rúðum bíla sinna snjó og hélu. Ekki þarf að fara mögrum orðum um það hversu nauðsynlegt er að útsýni ökumanna sé ekki skert og vill lögregla árétta þetta við ökumenn.

Lögregla hafði afskipti af nokkrum  ökumönnum á bifreiðum sem ekki voru með lögbundnar tryggingar í lagi og þurfti að taka þær úr umferð. Þá voru nokkrir áminntir vegna  ljósanotkunar.

Þrjú minniháttar umferðaróhöpp urðu í umdæminu í liðinni viku. Fimmtudaginn 5. feb. lenti bíll út af á Djúpvegi við Arnarnes. Farþegi kvartaði undan eymslum í baki og minniháttar skemmdir urðu á bílnum. Þá var bakkað á bíl við Edinborgarhúsið aðfaranótt sunnudags og bifreið lenti á umferðarmerki við gatnamót Vestfjarðarvegar og Djúpvegar í Skutulsfirði. Lögregla brýnir fyrir vegfarendum að akstursskilyrði á þessum árstíma geta verið erfið og breytast sífellt. Þá var einn ökumaður stöðvaður á Patreksfirði grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Ein minniháttar líkamsárás var tilkynnt til lögreglu aðfaranótt sunnudagsins.

Þá vill lögregla ítreka við foreldra og forráðamenn barna að nota þann öryggisbúnað sem til staðar er í bifreiðum, því  lögregla hefur orðið vör við að misbrestur er á því að viðeigandi öryggisbúnaður sé notaður.  Þetta hefur lögregla orðið vör við í eftirliti sínu við leikskólana. Máltækið segir: „Hvað ungur nemur gamall temur.“