29/03/2024

Verkefni lögreglunnar í liðinni viku

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum um verkefni í vikunni 20.-26. október kemur fram að slæmt veður mark sitt á verkefni lögreglunnar. Á fimmtudaginn var lýst yfir viðbúnaðarstigi á norðanverðum Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu. Í óveðri því sem gekk yfir landið urðu talsverðar vegaskemmdir víðsvegar um fjórðunginn og nokkuð var um að aðstoða þyrfti ökumenn og aðra vegfarendur sem lentu í vandræðum vegna færðar eða óveðurs. Á fimmtudagsmorgun var tilkynnt um að bifreið hafi farið út af og oltið á veginum um Tungudal í Skutulsfirði. Ökumaður var einn í bifreiðinni og sakaði hann ekki.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir fyrir meinta ölvun við akstur um helgina, annar á Patreksfirði og hinn á Tálknafirði. Þessu til viðbótar voru tveir ökumenn handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna, annar á Ísafirði en hinn í Bolungarvík. 

Nokkuð var um tilkynningar um slagsmál í nágrenni við veitingastaði á Ísafirði um helgina. Aðfaranótt laugardagsins var einn maður færður í fangaklefa eftir slagsmál. Á aðfaranótt sunnudagsins hafði lögreglan afskipti af nokkrum aðilum vegna slíkra mála og þurfti að stöðva slagsmál utan við veitingastaði í nokkrum tilfellum, en ekki er vitað til þessa að frekari eftirmál hafi orðið af þeim atvikum. Tilkynnt var um líkamsárás á veitingastað, en þar höfðu tvær konur tekist á og hefur kæra verið lögð fram vegna þessa atviks. Þá var einn vistaður í fangageymslu eftir slagsmál um nóttina.