04/10/2024

Þingsályktunartillaga um heilsársveg í Árneshrepp


Í dag var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um lagningu heilsársvegar í Árneshrepp. Flutningsmenn voru úr öllum flokkum og einnig óháðir þingmenn á Alþingi; Jón Bjarnason, Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Einar K. Guðfinnsson, Lilja Mósesdóttir, Ólína Þorvarðardóttir og Þór Saari. Í tillögunni segir: „Alþingi ályktar að lagður skuli heilsársvegur norður í Árneshrepp, þ.e. eftir Strandavegi (643) í Norðurfjörð. Meginframkvæmdir eigi sér stað á næstu fjórum árum en vinnunni ljúki á gildistíma samgönguáætlunar.“ Heilsársvegur í Árneshrepp hefur verið helsta baráttumál sveitarstjórnarmanna og íbúa á Ströndum öllum í samgöngumálum síðustu ár.

Í tillögunni segir einnig: „Framkvæmdir við umrædda vegarlagningu bætist við þær sem fyrir eru í þingsályktunartillögum um fjögurra ára samgönguáætlun 2011–2014 (þskj. 533, 392. mál) og um samgönguáætlun 2011–2022 (þskj. 534, 393. mál). Reynist ekki unnt að hliðra til með fullnægjandi hætti innan þeirrar samgönguáætlunar sem hefur verið lögð fyrir þingið verði fjárhagsrammi samgönguáætlana aukinn sem því nemur, þannig að markmið um heilsársveg í Árneshrepp náist.“

Ítarleg greinargerð fylgir tillögunni og má nálgast hana undir þessum tengli.