02/11/2024

Verkefni lögreglu í liðinni viku

Í tilkynningu um helstu verkefnu lögreglu á Vestfjörðum í vikunni kemur fram að tilkynnt var um eitt minniháttar umferðaróhapp til lögreglu í umdæminu, engin slys á fólki. Tveir ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í nágrenni Ísafjarðar. Nýlega var settur upp umferðargreinir í Bolungarvíkurgöngunum þar sem fram kemur að hraðakstur í göngunum er verulegur og sá sem hraðast ók þar, var mældur  á 137 km/klst.  Það er ekki spurning að þarna er ökumaður að stofna sér og öðrum vegfarendum í stórhættu. Lögregla vill því beina þeim tilmælum til ökumanna að fara eftir þeim reglum sem þar gilda, sem og annars staðar.  Hámarkshraði í Bolungarvíkurgöngunum er 70 km/klst. og mun lögregla auka verulega eftirlit með hraðakstri á svæðinu. 

Þrátt fyrir mikið eftirlit með ölvunar- og fíkniefnaakstri af hálfu lögreglu var enginn af þeim sem afskipti voru höfð af kærður. Enn og aftur hafði lögregla afskipti af ökumanni þar sem hann hafði fest bifreið á nýja skíðasvæðinu á Ísafirði, núna neðst við skíðalyftu á barnasvæðinu. Lögregla vill árétta það að akstur bifreiða á þessu svæði er með öllu óheimill og biður lögregla um að þetta sé virt. Þetta flokkast sem utanvegaakstur.

Skemmtanahald fór vel fram um helgina þrátt fyrir fjölmenni á skemmtistöðum.

Lögregla vill benda á að á aðventunni er lögregla með stíft eftirlit með ökumönnum, þar sem fylgst er með ölvunarakstri. Þá vill lögregla hvetja gangandi vegfarendur til þess að nota endurskinsmerki, talsvert hefur borið á að gangandi vegfarendur nota þau ekki og þar af leiðandi sjást þeir illa í umferðinni.