07/10/2024

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is á afmæli

Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is á afmæli um þessar mundir, en hann var opnaður formlega fyrir fjórum árum, þann 20. desember 2004, eins og sjá má af þessari frétt. Vefurinn hefur vaxið mjög að vinsældum á þessum tíma og daglega fær hann á milli 2500-5000 heimsóknir, sé miðað við síðustu mánuði. Vefurinn er notaður jafnt af heimamönnum og brottfluttum Strandamönnum, víðs vegar um heiminn og margir nágrannar Strandamanna skoða hann reglulega. Sama ritstjórn hefur stýrt vefnum í sjálfboðavinnu frá upphafi og nýtur aðstoðar þeirra sem senda inn efni og myndir á hverjum tíma. Jón Jónsson á Kirkjubóli er ritstjóri og með honum í ritstjórn eru Sigurður Atlason og Arnar S. Jónsson á Hólmavík.