14/09/2024

Vefmyndavélum sem sýna veður og færð fjölgar

Á EnnishálsiUnnið er að því að fjölga vefmyndavélum sem sýna veður og færð og nú hefur Vegagerðin tekið í notkun þrjár nýjar vélar, allar á Vestfjörðum. Myndavélarnar sýna hvernig færðin er á fjallveginum Mikladal milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar, á Hálfdán milli Tálknafjarðar og Bíldudals og á Fossahlíð í Skötufirði við Djúp. Hægt er að skoða þessar vélar á vef Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is. Fljótlega verða fimm vélar til viðbótar teknar í notkun, í Þrengslum, við Skeiðavegamót, við Landvegamót, við Landeyjahöfn á Bakkafjöruvegi og í Eldhrauni. Ekki er enn komið á áætlun að setja upp myndavél á nýja veginum um Arnkötludal, en þó er mastur fyrir slíka vél komið upp svo það stendur væntanlega til bóta.