23/12/2024

Veðrið í janúar 2009

Litla-ÁvíkÍ yfirliti Jóns G. Guðjónssonar veðurathugunarmanns í Árneshreppi yfir veðrið í janúar frá Veðurstöðinni í Litlu-Ávík kemur fram að mánuðurinn og árið byrjaði með hægviðri fyrstu 9 dagana, yfirleitt með hita yfir frostmarki. Eftir það frysti og gerði nokkrum sinnum norðaustan eða norðan hvassviðri með snjókomu og var umhleypingasamt. Mjög athugavert er að sjá hvað norðan og norðaustanáttin er hlý í janúarmánuði og var janúar í ár mun hlýrri en janúar árið 2008. Snjólétt var í mánuðinum þótt dálítill snjór væri um miðjan mánuð. Oft var talsverð hálka og úrkomusamt var í janúar. 

Yfirlit eftir dögum:

1.-4.: Mest austlægar vindáttir logn, kul eða gola, rigning eða súld, SV sinningsgola með smá skúrum um kvöldið þann 4., hiti frá -1 stigi uppí +6 stig.
5.-6.: Breytilegar vindáttir kul eða gola, en NA kaldi um tíma þann 6., frostúði um tíma þann 5. og snjókoma um kvöldið þann 6., hiti 0 til -1 stig.
7.-9.: Suðvestan eða sunnan stinningskaldi, síðan stinningsgola, rigning, síðan él, hiti +8 stig niðri -1 stig.
10.-12.: Norðaustan hvassviðri, síðan allhvass, en stinningsgola um kvöldið þann 12., snjókoma en él þann 12., hiti frá +2 stigum niðri -7 stig.
13.-14.: Breytilegar vindáttir, logn eða kul, þurrt í veðri, frost frá -0 stigum niðri -5 stig.
15.: Breytileg vindátt, gola, en NV um kvöldið með slyddu, hiti +1 til +4 stig.
16.: Norðan og NA kaldi og síðan allhvass, slydda síðan snjókoma, hiti 0 til +2 stig.
17.: Sunnan og SA hvassviðri og allhvass um tíma, síðan gola, slydda, hiti 0 til +3 stig.
18.: Norðvestan kul í fyrstu, síðan NNA kaldi, snjókoma, slydda eða rigning, hiti frá -2 stig uppí +2 stig.
19.: Sunnan og SA kaldi síðan gola, él um morguninn, hiti +1 til +3 stig.
20.-21.: Austan stinningskaldi eða allhvass, smá rigning, annars þurrt, hiti +2 til +4 stig.
22.-25.: Norðaustan hvassviðri síðan allhvass, snjókoma, slydda eða súld, hiti +1 til 4 stig.
26.: Austan eða breytileg vindátt, kul eða gola, snjókoma eða él fyrriparts dags, hiti -1 til +3 stig.
27.-28.: Sunnan eða SSV oft kaldi annars gola, úrkomulaust, hiti frá -2 stigum uppí +2 stig.
29.: Norðan gola með talsverðri snjókomu eða slyddu, hiti +2 stig niðri 0 stig.
30.: Breytileg vindátt, kul, smá él, hiti frá 0 og niðri -3 stig.
31.: Norðan og síðan V, kaldi síðan stinningsgola, él, hiti 0 niðri -4 stig.

Úrkoman mældist 121,6 mm, en 55,9 í janúar 2008.
Úrkomulausir dagar voru 4.
Mestur hiti var +8,2 stig þann 7. janúar
Mest frost var -6,6 stig þann 11. janúar
Jörð var alhvít í 16 daga, flekkótt í 9 daga og auð í 6 daga.
Mesta snjódýpt mældist dagana 12.-14. janúar, þá 25 cm.
Meðalhiti við jörð var -1,67 stig, en -3,22 í janúar 2008.
Sjóveður var allgott fyrstu 9 daga mánaðar, síðan rysjótt sjóveður.

Tekið saman af Jóni G. Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.