11/09/2024

Vantar þig bol fyrir veturinn?

Upplýsinga-miðstöðin á Hólmavík hefur enn til sölu hina sígildu hamingjuboli með merki hátíðahaldanna Hamingjudaga á Hólmavík í ýmsum litum og allnokkrum stærðum sem nánar er greint frá hér að neðan. Er ekki úr vegi að benda á nú þegar haustið er að bresta á að bolirnir eru allt í senn skjólgóðir, ásjálegir og endingargóðir, fyrir utan að fást á afar góðu verði. Barnastærðir kosta kr. 500.- og fullorðinsstærðir kr. 1.000.- Í miðstöðinni fást einnig heimabakaðar kökur frá kvennakórskonum, einnota myndavélar, kaffi, frímerki, póstkort, landakort, bækur, margvíslegt handverk, Hamingjulagið og hamingjumerki, Angurgapi, nábrækur og tilberar. Auk þess er hægt að leigja sér tjaldstæði eða reiðhjól, aðgang að þvottavél, þurrkara, eldunaraðstöðu og internetinu.

Eftirtaldar stærðir eru til af hamingjubolum:

Með bláu merki: 9-11, 12-13, S, M, L**.
Með rauðu merki: 12-13*, S, M, XL**, XXL*
Með appelsínugulu merki: 9-11**, 12-13, S, M*, L**
Með gulu merki: 7-8*, 9-11, 12-13, S, M, L, XXL*

Séu stærðir merktar með stjörnu er um verulegt fágæti að ræða og séu stjörnurnar tvær er bolurinn einsdæmi í sölubúðum heimsins. Þá er rétt að spýta í lófana og skella sér í miðstöðina til að tryggja sér síðasta eintakið.

Ef einhver skyldi halda að bolirnir séu óviðeigandi af því hamingjudagarnir séu liðnir, þá er rétt að taka fram að það er undir sjálfum þér komið hvort ekki séu allir dagar hamingjudagar á Hólmavík.