22/12/2024

Útskot á veginn um Hlíð

Aðsend grein: Guðfinnur Finnbogason
Það rifjaðist upp fyrir mér á dögunum þegar ég sá skemmdina á nýja veginum í norðanverðum Kollafirði, rétt þar hjá sem Hlíðarbærinn stóð fyrrum, að til okkar hefur komið fólk á hverju sumri eftir að fullnaðarfrágangi lauk, sem látið hefur í ljósi óánægju sína með að hvergi sé hægt að leggja bifreið frá Hvalsá að Litla-Fjarðarhorni og undrast það skeytingaleysi sem gestum þessarar byggðar er sýnt með því. Þetta er í öllum tilvikum fólk, sem taka vill sér gönguferð um fjöruna eða um fjallið fyrir ofan en áræðir ekki að skilja bíl sinn eftir að hálfu leyti inn á veginum þar sem umferð er jafn hröð og raun ber vitni enda þá í órétti og viðkomandi auk þess í nokkurri hættu.

Mér fannst rétt að koma þessu á framfæri þegar fyrir liggur allnokkur viðgerðarvinna á veginum á vori komanda og ræddi það við umdæmisstjóra Vegagerðarinnar, Jón Hörð Elíasson. Hann tjáði mér að við hönnun þessa vegar hefði ekki verið gert ráð fyrir neinu útskoti á leiðinni frá Kollafjarðarnesi að Litla-Fjarðarhorni, en uppá síðkastið væri farið að ræða um að koma fyrir aðstöðu nálægt Forvaðanum þar sem hægt væri að skilja eftir bifreiðar. Sú ósk væri komin frá fólki sem áhuga hefur fyrir að líta augum þau merku náttúrufyrirbrigði, sem eru í Drangavíkinni, klettadrangana.

Í viðtalinu við Jón Hörð viðraði ég þá hugmynd að um leið og viðgerðarvinna fer fram verði komið fyrir aðstöðu fyrir fólk að skilja eftir bíla sína á tveimur stöðum bæði ofan og neðan vegar, öðru rétt þar hjá sem skemmdin er ofan vegar (við lækinn), hinu neðan vegar nokkru sunnar. Í þeirri vissu um að margir vegfarendur myndu fagna þessu fór ég fram á þetta.

Ég bendi fólki á, sem vinnur að því að auka afþreyingarmöguleika sumargesta og vilja hægja aðeins ferð þeirra sem um Strandir fara að gefa þessu gaum.

Sem eftirmála þessa bréfs má geta þess fyrir þá sem ekki vita að þarna stóð bær þar til fyrir um 35 árum, bújörðin Hlíð. Fyrir einhverja tilviljun átti ég í fórum mínum blýantsteikningu af húsakynnum á þessari jörð eins og þau voru árið 1914, því rissi kom ég á sl. sumri í hendur afkomenda þeirra, sem þar bjuggu á þeirri tíð.

Guðfinnur Finnbogason, Miðhúsum