23/04/2024

Er Strandasýsla hluti Vestfjarða??

Aðsend grein: Guðmundur R. Björnsson
Oftar en ekki finnst mér það brenna við að Strandir og íbúar þeirra séu ekki taldar með Vestfjörðum nema á hátíðis og tyllidögum. Síðasta dæmið um þetta er skýrsla Vestfjarðanefndarinnar svokölluðu þar sem ekki fer mikið fyrir Strandasýslu eða byggðum hennar. Alls koma fyrir í skýrslunni 4-6 störf í sýslunni og þau öll á Hólmavík og bent hefur verið á að EKKI eigi að leggja 3 fasa rafmagn um sýsluna. Það sér það hver maður í hendi sér að Hólmavík er ekki eina byggðarlagið í sýslunni þó að það sé stærst og gegni hlutverki þjónustukjarna sýslunnar. Helmingur íbúa sýslunnar býr í þéttbýli þar sem megintekjur koma frá sjávarútvegi, þjónustu og stjórnsýslu. Hinn helmingurinn býr í dreifbýli þar sem landbúnaðurinn er eina eða aðaltekjulindin.

Hversu oft var minnst á landbúnað í skýrslu Vestfjarðanefndar? Einu sinni og það einungis til að taka það fram hversu mörg störf væru í landbúnaði á Vestfjörðum. Engar tillögur voru um hvað hægt væri að gera til að styrkja þann atvinnuveg. Þessi atvinnuvegur er ásamt sjávarútvegnum mikilvægastur fyrir Strandamenn og því ríður þar mest á að gerð sé gangskör að því að styrkja hann og efla.

Hvað er þá til ráða í landbúnaðarmálum Strandamanna? Eitt svar gæti verið á þá leið að leggja hann bara niður og flytja fólkið á mölina. En Strandamenn eru stoltir bændur sem hafa lagt sig fram við að rækta upp sitt fé og sést það best á haustin þegar aðrir bændur koma nánast í pílagrímsferðir til að sækja sér gimbrar og hrúta til að kynbæta eigin stofna. Til þessa hefur lítið verið gert til þess að nýta sér þessa sérstöðu Strandamanna sem ræktenda úrvalsfjár.

Móðir mín kom reyndar með þá hugmynd að Vestfirðir yrðu eitt sauðfjárræktarsvæði og sláturhúsið á Hólmavík yrði opnað á nýjan leik og myndi einungis slátra lömbum frá Vestfjörðum. Kjötið sem þarna kæmi frá væri síðan hægt að markaðssetja sem vestfirska villibráð á neytendamarkað. Frekari vinnsla á kjötinu gæti síðan skapað atvinnu fyrir hluta starfsmanna sláturhússins árið um kring og með því draga úr þeim sveiflum sem einkenna vinnu sem tengist sláturhúsum. Ég held að neytendur myndu gleypa við hnossgæti eins og lambalundum eða hryggjarvöðvum krydduðum með blóðbergi og fjallagrösum svo tekið sé dæmi.

Vistvæn framleiðsla er í sókn á Vesturlöndum og slátrun á úrvals lambakjöti gæti skapað Vestfirðingum og Strandamönnum sérstöðu á markaði og þar með skapað atvinnu fyrir þá sem ekki hafa löngun til að yfirgefa sveitasæluna fyrir streitu borgarlífsins.

Höfundur er fæddur og uppalinn á Melum 1 í Árneshrepp
En stundar nú nám við framleiðslutæknifræði í Óðinsvéum