11/10/2024

Útafakstur við Hrófá

Í fréttatilkynningu lögreglunnar um verkefni í síðustu viku kemur fram að á föstudag varð umferðaróhapp við gatnamótin við Hrófá, þar sem í framtíðinni verður lagt af stað um Arnkötludal. Þar missti ökumaður vald á bifreiðinni og hún hafnaði fyrir utan veg, en ekki slys á fólki. Fleiri óhöpp urðu í vikunni, t.d. minniháttar óhapp á Suðureyri og útafakstur á Rauðasandsvegi milli Patreksfjarðar og Rauðasands. Þar var erlendur ferðamaður á ferð sem missti vald á bílnum í lausamöl og bifreiðin hafnaði utan vegar. Ekki varð slys á fólki, en talsverðar skemmdir á bifreiðinni. Þá enduðu bílar utan vegar á Súgandafjarðarvegi, Hnífsdalsvegi og Skutulsfjarðarbraut.

Lögreglan vill brýna fyrir ökumönnum að gæta varúðar, þar sem akstursskilyrði fara mjög versnandi á þessum árstíma. Þá er nokkuð um að ekið hafi verið á búfé í umdæminu og vill lögregla biðja vegfarendur að gæta varúðar, þar sem fjárrekstrar eru og fé að koma af fjalli. Lögregla áminnti nokkra ökumenn vegna ljósabúnaðar í liðinni viku og tók þrjá fyrir of hraðan akstur í nágrenni við Ísafjörð.