22/12/2024

Út og suður með Jóni Arnari

Í kvöld verður mannlífsþáttur Gísla Einarssonar, Út og suður, á dagskrá í Ríkissjónvarpinu. Gísli hefur verið iðinn við að ferðast um landið og taka menn og konur tali og þeirra á meðal hafa verið nokkrir merkir og mætir Strandamenn. Annar gestur þáttarins í kvöld er einmitt Strandamönnum að góðu kunnur, en það er Jón Arnar Gestsson staðarhaldari í Reykjanesi við Djúp. Jón Arnar tók við starfseminni í Reykjanesi síðastliðið vor eftir að hafa unnið í tölvumálum hjá fyrirtækinu Snerpu í rúman áratug. Hann hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu í Reykjanesi í sumar og óhætt er að segja að hann ætli að nýta sér til fullnustu þá ferðaþjónustumöguleika sem svæðið hefur upp á að bjóða. Þátturinn hefst kl. 20:45.