Þá er Íslandsmeistaramótinu í hrútadómum 2010 lokið. Það er skemmst frá því að segja að mótið í ár var best sótti viðburðurinn í sögu Sauðfjárseturs á Ströndum. Yfir 400 manns mættu í Sævang og hvorki fleiri né færri en 71 tóku þátt í hrútadómunum – 43 í flokki óvanra og 28 í flokki vanra dómara. Aldrei hafa fleiri tekið þátt og óhætt er að fullyrða að mótið sé mjög að eflast, vaxa og dafna. Það var Bolvíkingurinn Elvar Stefánsson sem fór með sigur af hólmi í flokki vanra þuklara, en hann hefur keppt í þuklinu svo til frá upphafi og náði meðal annars öðru sæti árið 2005. Í flokki óvanra fóru þær Brynja Bjarnfjörð Magnúsdóttir og Emma Ýr Kristjönudóttur með sigur af hólmi.
Úrslit Íslandsmeistaramótsins voru annars þessi:
Í flokki óvanra hrútaþuklara:
1) Emma Ýr Kristjönudóttir, Hólmavík (3ja ára) og Brynja Bjarnfjörð Magnúsdóttir, Keflavík
2) Guðný Hrönn Þorsteinsdóttir, Reykjavík (11 ára)
3) Birna Ingimarsdóttir, Kaldrananesi í Bjarnarfirði
Í flokki vanra hrútaþuklara:
1) Elvar Stefánsson, Bolungarvík
2) Björn Torfason, Melum í Árneshreppi
3) Eiríkur Helgason, Stykkishólmi
Hrútarnir sem voru dæmdir voru þeir Spaði, Grafar, Hvellur og Fleygur, en allir eru þeir í eigu Jóns Stefánssonar á Broddanesi utan þess síðastnefnda sem er í eigu Matthíasar Lýðssonar í Húsavík. Það voru 43 sem kepptu í óvana flokknum en 28 tóku þátt í flokki hinna vönu. Verðlaun voru afar vegleg, meðal annars fengu sigurvegararnir í vana flokknum 5, 10 og 15 skammta af hrútasæði frá Sauðfjársæðingarstöð Vesturlands. Margir aðrir vinningar voru einnig veittir keppendum í þremur efstu sætum í hvorum flokki frá Bændasamtökum Íslands, Sauðfjársetrinu, Strandagaldri, Malarhorni á Drangsnesi, Hólmadrangi, Strandalambi í Húsavík og Strandakúnst á Hólmavík.
Gestum og þátttakendum dómanna er þakkað kærlega fyrir komuna og um leið eru menn boðnir velkomnir á Íslandsmeistaramót í hrútadómum árið 2011, en það verður haldið ásamt þuklaraballinu laugardaginn 13. ágúst.