16/06/2024

Úrslit í spurningakeppni

Lið kennara við HólmavíkurskólaFramundan er úrslitakvöldið í Spurningakeppni Strandamanna, en það verður haldið á sunnudaginn kl. 20:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Að venju verður þar mikið um dýrðir og örugglega verður hart barist um Viskubikarinn sem Strandagaldur hefur nú varðveitt síðasta árið. Það er Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir keppninni, en Kristín S. Einarsdóttir hefur verið spyrill og dómari þetta árið. Edda útgáfa styður keppnina og gefur aðalverðlaun.

Á úrslitakvöldinu mætast fyrst harðsnúið lið Hólmadrangs og víðlesnir kennarar við Grunnskólann á Hólmavík. Hin keppnin í undanúrslitunum er á milli stórgáfaðra starfsmanna á skrifstofu Hólmavíkurhrepps og fjölfróðra fréttaritara á strandir.saudfjarsetur.is sem að eigin sögn eru búnir að undirbúa sig fyrir þessa keppni alla ævi. Það eru síðan sigurvegarar í þessum keppnum sem berjast til þrautar í úrslitaviðureign eftir hlé og skemmtiatriði.

Fyrsta árið sem keppnin var haldin sigruðu kennarar við Hólmavíkurskóla, en annað árið sigraði Strandagaldur. Eina liðið af þeim sem nú komst í fjögurra liða úrslit og hefur ekki verið þar áður er strandir.saudfjarsetur.is, enda er keppnin töluvert eldri en vefurinn.