14/12/2024

Unglistahátíð í Húnaþingi

Í dag hefst í Húnaþingi vestra árleg Unglistahátíð og stendur næstu daga. Hátíðin er sú þriðja í röðinni, þar sem vel heppnuðum atburðum undanfarinna ára er blandað saman við nýungar ársins í ár. Opnunaratriði hátíðarinnar í ár fer fram miðvikudagskvöldið 20. júlí á Laugarbakka í Miðfirði, þar sem mennskt tafl verður háð af kappi. Unglistaútvarp er rekið dagana sem hátíðin stendur yfir, myndlistasýningu má sjá á götum Hvammstangabæjar og fjölskylduhátíð verður haldin á staðnum á laugardeginum.  Þá er árleg dagskrá í Borgarvirki á föstudagskvöldinu, þar sem karlakórinn Lóuþrælar mun stíga á klöpp, bílabíó verður starfrækt seinna sama kvöld ásamt tón- og leiklistaratriðum stórum og smáum yfir hátíðina.

Hljómsveitin Bermúda, sem mun um verslunarmannahelgina komandi spila bæði á Þjóðhátíð í Vestamannaeyjum og á Bindindishátíðinni í Galtalækjarskógi, mun slá botninn í skipulagða dagskrá hátíðarinnar með balli í félagsheimilinu Víðihlíð laugardagskvöldið 23. júlí.
 
Frekari upplýsingar um hátíðina er að finna á veraldarvefnum, http://unglist.forsvar.is – dagskráin í ár, myndir frá fyrri hátíðum og ýmiss annar fróðleikur.

Póstkortsefni úr Húnaþingi – ljósm. Jón Jónsson