22/12/2024

Unglingalandsmóti frestað eða það slegið af

SundmótÁ fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í gær var Unglingalandsmóti sem halda átti á Hólmavík árið 2010 annað hvort frestað um eitt ár eða það slegið af, en ekki er með öllu ljóst af fundargerðinni hvort var niðurstaðan. Í skýrslu sveitarstjóra sem lögð var fram á fundinum var sagt frá fundi sem haldinn var í Borgarnesi að beiðni bæjarstjóra Grundarfjarðar til að fjalla um fyrirhuguð unglingalandsmót í Grundarfirði 2009 og á Hólmavík 2010. Á fundinn mættu 4 fulltrúar frá Grundarfirði, 3 frá Strandabyggð og 2 frá UMFÍ. Sjá fulltrúar Grundarfjarðar fram á ógerlegt verði að klára þær framkvæmdir sem eftir standa fyrir undirbúning mótsins miðað við efnahagsástandið og erfiðleika við að fá lánsfé, samkvæmt skýrslu sveitarstjóra Strandabyggðar. 

Segir í skýrslu sveitarstjóra að því hafi komið upp sú spurning hvort hægt yrði að halda mótið í ár einhvers staðar þar sem öll aðstaða er þegar fyrir hendi, en Grundfirðingar héldu mótið 2010 og þá Strandabyggð 2011. Var ákveðið á fundinum að kanna vilja heimamanna og stjórnar UMFÍ til málsins. 

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að falla frá því að halda mótið árið 2010 vegna erfiðs efnahagsástands og gefa Grundfirðingum færi á að halda mótið það ár. Þá var samþykkt að endurskoða málið þegar stöðugleiki verður kominn á í efnahagslífi þjóðarinnar.