20/04/2024

Súpufundur í hádeginu á morgun fimmtudag

Þriðji súpufundur Þróunarsetursins á Hólmavík og Arnkötlu 2008 verður í hádeginu
á Café Riis á morgun frá kl. 12:00 – 13:00. Á fundinum mun Jón Páll Hreinsson
forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða fjalla um starfsemi Markaðsstofunnar og
hvað er framundan hjá henni auk þess að skýra fyrir Strandamönnum hvaða öldusjó
hún þarf að sigla um á komandi vikum. Markaðsstofan hefur nú starfað í u.þ.b.
þrjú ár og hefur verið sérstakur vettvangur á markaðssetningu ferðaþjónustu á
Vestfjörðum. Öll sveitarfélög á Vestfjörðum hafa komið að fjármögnun stofunnar
og verkefnum hennar og hið opinbera lagt til stærstan skerf til hennar.

Markaðsstofur eru nú orðnar í hverjum landsfjórðungi og þær starfa saman að
ýmsum sameiginlegum verkefnum. Markaðsstofa Vestfjarða hefur verið mikilvæg
fyrir ferðaþjónustu á Ströndum og lagt til mikla kunnáttu inn í greinina auk
þess að vera mikilvægt tæki í markaðssetningu Stranda jafnt og annarra svæða á
Vestfjarðakjálkanum.

Á síðasta súpufund komu 50 manns og gæddu sér að gómsætri
súpu að hætti Café Riis. Þá kynnti Jóhann Björn Arngrímsson forstjóri
Heilbrigðisstofnunarinnar á Hólmavík stofnunina. Súpa á fundinum kostar aðeins
kr. 800. Það eru allir velkomnir á þessa skemmtilegu og fróðlegu fundi.


Fimmtíu manns á öllum aldri mættu á súpufundinn í síðustu viku og fræddist um atvinnumál í héraðinu